Innlent

Vill ræða fulla aðild Færeyinga

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ætlar að óska eftir fundi með forsætisráðherrum Norðurlanda um fulla aðild Færeyinga að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Nefndin ræddi óskir Færeyinga um fulla aðild í dag og Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, segir að þær hafi fengið mjög góðar undirtektir eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Norðurlandaráði. Forsætisnefndin vill að fundurinn með forsætisráðherrunum fari fram í tengslum við Norðurlandaráðsþing sem fram fer í Reykjavík í október. Nefndin ætlar einnig að óska eftir viðræðum við Vestnorræna ráðið um málið. Ósk Færeyinga um fulla aðild kom fyrst fram í bréfi frá Anfinn Kallsberg, þáverandi lögmanni Færeyja, til danskra stjórnvalda um mitt ár 2003. Danir voru þá mótfallnir óskum Færeyja og sögðu að full aðild að myndi brjóta gegn ákvæðum dönsku stjórnarskrárinnar. Rannveig segir að ákveðið hafi verið á fundi forsætisnefndarinnar að fara ofan í saumana á lagalegri hlið málsins eftir fundinn með forsætisráðherrununum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×