Innlent

Framboð verði með minni kostnaði

Geir H. Haarde utanríkisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi náð samstöðu um að standa við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinu þjóðanna en að það verði gert með minni tilkostnaði. Geir gekk á fund utanríkismálanefndar klukkan ellefu í morgun, til að tilkynna nefndinni um afstöðu sína í málinu en áður hafði málið verið rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Geir segir að ríkisstjórnin hafi einsett sér að spara verulegar fjárhæðir frá því sem áður var ráðgert með því að fara öðruvísi í málið. Því verði fylgt eftir af hófsemd sem hafi einkennt vinnubrögð Íslendinga á alþjóðavettvangi, ekki verði gerðir út sérstakir sendiherrar til að kynna málið en reynt verði að vinna það á vettvangi SÞ í New York og draga úr ferða- og risnukostnaði sem þessu gæti fylgt. Aðspurður hversu miklum fjármunum ríkisstjórnin muni þá verja til framboðsins segir Geir að framboðið sjálft á næstu þremur árum geti kostað um 210 milljónir, en þær tölur séu þó ekki endanlegar. Svo fari þetta eftir því hvort Ísland komist í öryggisráðið en kostnaður við setuna gæti orðið 100 milljónir króna hvort ár sem setið er í ráðinu. Aðspurður hvort þessi ákvörðun hafi áhrif á möguleika Íslands til að hljóta sætið segir Geir að hann telji svo ekki vera. Þetta sé alvöruframboð og Íslendingar muni axla þá ábyrgð sem fylgi setunni í ráðinu ef á reyni. Þetta verði gert af fullkominni hógværð eða látleysi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×