Innlent

Útgjöld tveggja ráðuneyta lækka

Útgjöld ríkissjóðs aukast hlutfallslega mest hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Útgjöld hvors ráðuneytis um sig aukast um ellefu prósent. Útgjöld umhverfisráðuneytis dragast hins vegar saman um þrjú prósent. Rekstrarkostnaður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hækkar um ellefu prósent milli ára. Mest munar að útgjöld vegna sérsveitar Ríkislögreglustjóra hækkar um 100 milljónir vegna áætlana um að efla starf sveitarinnar. Útgjöld fjármálaráðuneytisins hækka um ellefu prósent og munar mest um átján prósenta aukningu í neyslu- og rekstrartilfærslum. Undir það fellur annars vegar að gert er ráð fyrir að afskrifa þurfi skattkröfur fyrir tveimur milljörðum króna meira en í ár og hins vegar að spáð er 1.200 milljóna króna hækkun á útgjöldum vegna barnabóta. Útgjöld tveggja ráðuneyta lækka milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, útgjöld forsætisráðuneytisins lækka um eitt prósent en útgjöld umhverfisráðuneytisins um þrjú prósent. Hjá umhverfisráðuneytinu munar mestu að útgjöld vegna ofanflóðavarna lækka um hundrað milljónir og styrkir til sveitarfélaga vegna fráveitukerfa lækka um 20 milljónir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×