Innlent

Viðskiptahalli áfram mikill

Spáð er áframhaldandi miklum hagavexti á næsta ári í nýrri þjóðhagsspá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, en hún var birt samhliða fjárlagafrumvarpi næsta árs. Gert er ráð fyrir að úr hagvexti dragi á árinu 2007 vegna samdráttar í framkvæmdum og innlendri eftirspurn. Á þessu ári er hagvöxturinn um sex prósent en gert er ráð fyrir að hann verði 4,6 prósent á næsta ári og fari niður í 2,5 prósent árið 2007. Viðskiptahallinn við útlönd er með mesta móti á þessu ári eða liðlega 13 prósent af landsframleiðslu vegna stóriðjuframkvæmda og einkaneyslu og verður hann litlu minni á næsta ári samkvæmd spá efnahagsskrifstofunnar. Eftir tvö til þrjú ár er búist við að hann verði kominn niður í 2,5 prósent af landsframleiðslu. Atvinnuleysi er með minnsta móti og er gert ráð fyrir að það verði innan við tvö prósent á næsta ári. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að verðbólga verði 3,8 prósent á næsta ári en það er í samræmi við spá efnahagsskrifstofu ráðuneytisins. Þess er getið að gengisþróun og hugsanlegar ákvarðanir um frekari stóriðju valdi óvissu í þjóðhagsspánni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×