Innlent

Vill álit á vistaskiptum þingmanns

Framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins hefur óskað eftir rökstuddu áliti umboðsmanns Alþingis á því hvort Gunnar Örn Örlygsson geti tekið þingsæti Frjálslynda flokksins og farið með það í Sjálfstæðisflokkinn. Á þingfundi á síðasta starfsdegi Alþingis síðastliðið vor tilkynnti Gunnar Örn Örlygsson alþingismaður að hann hefði sagt sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokk en með vistaskiptum þingmannsins jókst meirihluti ríkisstjórnarflokkanna. Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslyndra, hefur óskað eftir rökstuddu áliti umboðsmanns Alþingis á því hvort Gunnari Örlygssyni hafi verið heimilt að fara eins og hann gerði, með það umboð sem kjósendur Frjálslynda flokksins veittu honum í síðustu alþingiskosningum. Gæti kjörinn þingmaður til dæmis skipt um flokk um leið og hann hefur móttekið kjörbréf sitt, spyr hún og bætir við: Sé það heimilt, er þá opin leið fyrir tækifærissinna að fara í framboð fyrir einn flokk en ákveðið síðan að skipta um flokk strax að loknum kosningum. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar segir Margrét að vissulega sé brýnt að fá svar frá umboðsmanni en mikilvægast sé þó að fá umræðu um málið og að samstaða náist um að svona gerist ekki aftur, framkoma þessi sé óheiðarleg og vanvirðing við kjósendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×