Innlent

Hótanirnar ganga á víxl

Hótanirnar ganga á víxl á milli stóru flokkanna í Þýskalandi. Forsvarsmenn þeirra gera nú þriðju tilraun til að ná samkomulagi um samsteypustjórn en hvorki gengur né rekur. Búist er við að viðræðurnar dragist fram í nóvember. Angela Merkel og Gerhard Schröder vilja ennþá bæði verða kanslari og nú hóta þau að slíta viðræðum um samsteypustjórn gefi hitt ekki eftir. Kristilegir demókratar segja að jafnaðarmenn verði að sætta sig við grundvallarreglur þingræðisins. CDU hafi meira fylgi en SPD og því sé eðlilegt að Merkel verði kanslari. Schröder hefur hingað til neytað að víkja þrátt fyrir að flokkur hans hafi hlotið minna fylgi. Á mánudagskvöldið sagðist hann að vísu ekki ætla að gera neitt sem gæti orðið til þess að hindra myndun stjórnar en flokkssystkin hans virðast ekki enn vera reiðubúinn að fórna honum. Stjórnmálaskýrendur telja þó að það sé leikflétta, til þess ætluð að fá kristilega demókrata til að gefa eftir á öðrum sviðum, til að mynda gefa eftir einhver ráðherraembætti. Jafnaðarmenn vilja að Merkel og félagar virði þá sem jafningja þrátt fyrir minna fylgi. Enginn tekur hótanirnar alvarlega heldur eru þær einungis taldar leikflétta, enda vandséð að hægt verði að mynda aðra stjórn en samsteypustjórn jafnaðarmanna og kristilegra demókrata. Merkel og félagar hafa að vísu imprað á þriggja flokka stjórn með frjálslyndum og græningjum, en græningjar vilja ekki taka þátt í slíkri stjórn. Þrátt fyrir deilurnar hefur náðst samkomulag í lykilþáttum, meðal annars um breytingar á skattalögum og umbætur á fjárlögum. Hlutabréfamarkaðurinn brást vel við því en ekki líst öllum vel á samsteypustjórnina. Virtir, þýskir efnahagssérfræðingar telja víst að stjórnin þýði algjöra stöðnun í stað nauðsynlegra umbóta og almennt þykir líklegt að slík stjórn myndi ekki sitja út kjörtímabilið, heldur verði efnt til kosninga á ný eftir tvö ár í mesta lagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×