Innlent

Sveitarstjóra verði sagt upp

Tillaga um að Ársæli Guðmundssyni, sveitarstjóra Skagafjarðar, verði sagt upp störfum verður lögð fram á sveitarstjórnarfundi á morgun, en það er Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar, sem ber fram tillöguna. Sjálfstæðismenn og Vinstri - grænir hafa starfað saman í meirihluta í sveitarfélaginu en undanfarið hefur borið á kergju þeirra milli vegna ýmissa mála. Aðspurður um ástæðu þess að hann hyggist leggja fram tillögu um að Ársæli Guðmundssyni, sem er fulltrúi vinstri - grænna, verði sagt upp stöfum segir Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar og forystumaður sjálfstæðismanna í sveitinni, að hann vilji ekki fara úti í það nú en hann muni leggja fram greinargerð á fundinum á morgun þar sem ástæður fyrir uppsögn verða tíundaðar. Gísli neitaði því þó ekki aðspurður að deilur flokkanna undanfarið spiluðu inni í. Ársæll og Gísli hafa að undanförnu deilt hatrammlega eftir að Ársæli var neitað um ferðastyrk vegna sveitastjórnarráðstefnu í Brussel og sambúð flokkanna hefur á tíðum verið stormasöm. Aðspurður hvort hann teldi sig hafa stuðning til þess að knýja uppsögnina í gegn á morgun sagðist Gísli reikna með því en það væri þó aldrei að vita. Ársæll Guðmundsson sveitarstjóri vildi í samtali við fréttastofu ekki tjá sig um málið og sagðist vildu láta fundinn líða áður en hann gerði það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×