Innlent

Ársæli verður líklega sagt upp

Allt útlit er fyrir að Ársæli Guðmundssyni, vinstri - grænum, verði sagt upp störfum sem sveitarstjóra Skagafjarðar á fundi sveitarstjórnar sem hófst upp úr klukkan fjögur. Gísli Gunnarsson, forseti sveitastjórnar og leiðtogi sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu, hyggst leggja fram tillögu þessa efnis á fundinum, en vinstri - grænir og sjálfstæðismenn hafa undanfarið starfað saman í meirihluta í bæjarfélaginu. Gunnar B. Sveinnson, einn þriggja fulltrúa Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Skagafjarðar, segir að framsóknarmenn ætli sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið. Hann býst við að fulltrúi Skagafjarðarlistans muni gera slíkt hið sama, en ekki náðist í hann fyrir fundinn. Þar sem sjálfstæðismenn eiga þrjá fulltrúa í sveitarstjórninni en vinstri - grænir tvo er, útlit fyrir að tillaga Gísla Gunnarssonar verði samþykkt og Ársæll hverfi úr starfi sem sveitarstjóri í Skagafirði. Sambúð sjálfstæðismanna og vinstri - grænna í Skagafirði hefur verið stormasöm að undanförnu og hafa flokkarnir deilt um ýmis málefni, nú síðast vegna þess að Ársæli sveitarstjóra var synjað um ferðastyrk til að fara á sveitastjórnarráðstefnu í Brussel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×