Innlent

Kynna tillögur vegna fuglaflensu

Tillögur að viðbrögðum íslenska ríkisins vegna hættu á að fuglaflensan verði að heimsfaraldri verða kynntar í ríkisstjórn á næstu dögum. Kostnaður við að hrinda tillögunum í framkvæmd gæti orðið á annað hundrað milljóna króna. Spánska veikin sem geisaði hér árið 1918, var fuglaflensa sem stökkbreyttist og barst í menn. Það eru ráðuneytisstjórarnir Þorsteinn Geirsson í dómsmálaráðuneytinu og Davíð Á. Gunnarsson í heilbrigðisráðuneytinu sem hafa haft veg og vanda að undirbúningi áætlunarinnar sem fjallar um viðbúnað íslenska ríkisins vegna hættunar sem stafar að hugsanlegum heimsfaraldri. Efni skýrslunnar er trúnaðarmál þar til hún hefur verið rædd í ríkisstjórn. Endanleg fjárhagsáætlun liggur ekki fyrir en að minnsta kosti annað hundrað milljónir kostar að hrinda tillögunum í framkvæmd. Davíð Á. Gunnarsson er þessa stundina á alþjóðlegum fundi sem bandarísk stjórnvöld halda í samráði við Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina. Verið að ræða samræmd viðbrögð við fuglaflensu en Alþjóðaheilbrigðisstofnun hefur hvatt þjóðir heims til að samræma viðbúnað sinn. Spánska veikin er einhver mannskæðasta inflúensa sem sögur fara af en hún dró hátt í 500 Íslendinga til dauða árið 1918. Vísindamenn við rannsóknarstofu í Atlanta hafa nú endurlífgað veiruna með því að nota lungu tveggja hermanna sem létust úr veikinni og lík konu frá Alaska sem hafði verið grafin í sífrera. Meðal þess sem vísindamennirnir hafa komist að er að spánska veikin var fuglaflensa sem stökkbreyttist og barst í mannfólk. Þetta þykir enn frekar undirstrika hættuna á að fuglaflensan verði að heimsfaraldri. Vísindamennirnir vonast til þess rannsóknirnar leiði til vopna í baráttunni gegn fuglaflensu en Reuters-fréttastofan vitnar til vísindamanna sem vara við afleiðingunum og óttast að veira berist út af rannsóknarstofum með skelfilegum afleiðingum. Þá segja enn aðrir að vísindamennirnir hafi skapað eitt skaðvænlegasta sýklavopn sem til er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×