Innlent

Fæstir vildu sameiningu

Áform um sameiningu sveitarfélaga biðu afhroð í kosningum í gær. Af sextán sameiningartillögum voru fimmtán felldar. Sú eina sem náði fram að ganga var á Mið-Austurlandi en samkvæmt henni sameinast Austurbyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhreppur í kjölfar sveitarstjórnarkosninga næsta vor. Dagar Mjóafjarðarhrepp sem fámennsta sveitarfélags landsins eru því senn taldir. Alls voru um 70 þúsund manns á kjörskrá. Liðlega 22 þúsund nýttu atkvæðisrétt sinn, sem þýðir að kjörsókn var 32 prósent. Kosið var í 61 sveitarfélagi og og reyndust 44 prósent kjósenda fylgjandi sameiningu en 56 prósent andvígir. Í fimm sveitarfélögum verða sameiningarkosningar endurteknar innan sex vikna.  Fjögur þeirra eru Þingeyjarsýslum; Aðaldælahreppur, Kelduneshreppur, Skútustaðahreppur og Tjörneshreppur, þar sem kosið er um sameiningu við Húsavíkurbæ, Öxarfjarðarhrepp og Raufarhafnarhrepp. Einnig munu íbúar Reykhólahrepps greiða atkvæði að nýju um sameiningu við Dalabyggð og Saurbæjarhrepp. Á Suðurnesjum höfnuðu íbúar Garðs og Sandgerðis að sameinast Reykjanesbæ, sem íbúar þar studdu. Íbúar Vatnsleysustrandar höfnuðu sameiningu við Hafnarfjörð en Hafnfirðingar sögðu hins vegar já. Á Snæfellsnesi var sameiningartillaga felld í öllum sveitarfélögum. Á Vestfjörðum var sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar hafnað í báðum sveitarfélögum. Í Eyjafirði voru það aðeins íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem studdu stórsameingu Eyjafjarðarsvæðisins. Sérstaka athygli vekur að hún var felld á Akureyri. Í Grýtubakkahreppi var andstaðan svo rækileg að aðeins tveir kjósendur vildu sameiningu. 99 prósent sögðu nei. Í Árnessýslu var tillaga um sameiningu sveitarfélaga í Ölfusi og Flóa felld af íbúum í öllum sveitarfélögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×