Innlent

Leyfir ekki innflutning erfðaefnis

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir ekki koma til greina að leyfa innflutning erfðaefna til að blanda við íslenska kúastofninn. Hann furðar sig á ályktun borgfirskra bænda um að undirbúningur að slíkum innflutningi skuli hafinn. Borgfirskir kúabændur hafa ályktað að hefja beri undirbúning að innflutningi erfðaefna frá útlöndum til að efla íslenska kúastofninn. Þeir segja vísbendingar um að íslensku kýrnar dugi ekki mikið lengur til að anna eftirspurn eftir mjólkurvörum og segja það ábyrgðarlaust að bregðast ekki við því. Guðni Ágústsson telur hins vegar enga ástæðu til að flytja inn erfðaefni. "Þetta var mjög fámennur fundur," segir landbúnaðarráðherra og kveður það hafa komið sér á óvart að borgfirskir bændur skildu álykta um þetta nú. Farið hafi verið í gegnum þetta mál fyrir fáeinum árum og þá hafi 75 prósent bænda lýst andstöðu sinni við að flytja inn erfðaefni. Guðni segir að þá hafi bændur orðið þess áskynja að Íslendingar vildu ekki skipta út íslensku kúnni. Guðni segir undarlegt að hefja umræðu um þetta nú þegar staða bænda sé góð. Hann sér því enga ástæðu til að hefja innflutning erfðaefna og blæs á beiðnir borgfirskra bænda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×