Innlent

Fær ekki lífeyri föður síns

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun af kröfu konu sem fór fram á að fá greiddan lífeyri eftir föður sinn. Sjóðurinn hafði áður hafnað umsókn konunnar um lífeyrisgreiðslu eftir föður sinn sem lést árið 1995. Krafa hennar byggðist á því að í ákvæði í lögum um lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna er kveðið á um að heimilt sé að greiða hlutaðeigandi lífeyri eins og um ekkju eða ekkil væri að ræða, í þeim tilvikum þegar sjóðfélagi lætur ekki eftir sig maka, en einstæð móðir hans, ógift systir, eða annar ógiftur aðili, hefur sannanlega annast heimili hans um árabil, fyrir andlát sjóðsfélaga. Umsókn konunnar var hins vegar hafnað á þeim forsendum að konan hefði ekki búið nægilega lengi samellt á heimili föður síns, síðustu árin fyrir fráfall hans. Konan leitaði til Umboðsmanns Alþingis sem gerði athugasemdir við höfnun Lífeyrissjóðsins á kröfu konunnar og sagði hana ekki byggja á nægjanlega skýrum eða málefnalegum sjónarmiðum. Þar af leiðandi ákvað konan að stefna sjóðnum fyrir að neita sér um lífeyrisgreiðslu eftir föður sinn. Héraðsdómur Reykjavíkur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í morgun að sjóðurinn hafi ekki þurft að greiða konunni lífeyri þar sem ekki liggi fyrir óyggjandi upplýsingar um að hún hafi haldið heimili með föður sínum síðustu fimm árin fyrir andlát hans, eins og lagaákvæðið sem hún byggði málsókn sína á kveður á um.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×