Innlent

Mjög alvarlegar athugasemdir segir Jóhanna

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir mjög alvarlegar athugasemdir koma fram í úttekt Ríkisendurskoðunar á kaupum ríkisins á sérfræðiþjónustu á undanförnum árum.

Aðkeypt sérfræðiþjónusta ríkisins árið 1998 var 2,7 milljarðar á föstu verðlagi. Fimm árum síðar, árið 2003, var þessi kostnaður kominn upp í 5,2 milljarða sem þýðir 92% aukning. Kostnaður ríkisins vegna kaupa á sérfræðiþjónustu tvöfaldaðist einnig á milli áranna 1994 og 1998. Ríkisendurskoðun gagnrýndi þetta verulega í úttekt frá árinu 2000, meðal annars það að ekki væri farið eftir neinum samræmdum reglum eða leiðbeiningum við kaup á ráðgjöfinni. En nú, fimm árum síðar, virðist enn vera veruleg brotalöm í kaupum á sérfræðiþjónustu.

Aðspurð segir Jóhanna Sigurðardóttir mjög alvarlegt að enn virðast slæleg vinnubrögð vera viðhöfð í þessum efnum. Þá sé ekki síður alvarlegt, ef rétt er, sú athugasemd Ríkisendurkðunar að oft séu ráðgjafarnir sem þjónusta sé keypt af ekki hlutlausir heldur selji sjálfir ákveðnar afurðir eða „lausnir".

Jóhanna hyggst taka málið upp á Alþingi og hefur þegar sent beiðni um að fjárlaganefnd taki málið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×