Innlent

Breyta þarf um takt í vistunarmálum aldraðra

MYND/Gunnar

Breyta þarf um takt í vistunarmálum aldraðra segir heilbrigðisráðherra. Hann vill að meiri áhersla verði lögð á uppbyggingu léttari þjónusturýma.

NFS hefur fjallað um bága aðstöðu aldraðra undanfarna daga og þá fyrst og fremst hjóna og sambúðarfólks þar sem annar aðilinn veikist og fer inn á stofnun en makinn fær ekki inni á sama stað. Um það bil fjörutíu hjón og sambúðarfólk eru nú aðskilin og fá ekki að eyða ævikvöldinu saman af því að ekki er hægt að vista þau saman á stofnun. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir þetta vissulega ekki vera gott mál og að það leysist ekki nema með því að breyta um takt í þessum málaflokki. Vill hann að lögð verði meiri áhersla á léttari þjónusturými og að heimaþjónusta verði efld í samvinnu við sveitarfélögin þannig að fólk geti verið lengur heima ef það er mögulegt.

Aðspurður hvort hann hyggist beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að fá aukið fjármagn í málaflokkinn segir heilbrigðisráðherra að stjórnin hafi verið að setja aukið fjármagn í heimahjúkrun samkvæmt samningi við aldraða. Þetta mál þurfi svo að skipuleggja í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×