Innlent

Ísland í 13. sæti yfir hlutfall kvenna á þjóðþingum

MYND/GVA

Íslendingar eru nokkrir eftirbátar hinna norrænu ríkjanna þegar kemur að hlutfalli kvenna á þjóðþingum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Alþjóðaþingmannasambandinu sem birtar voru í gær.

Ísland er í þrettánda sæti á listanum af 187 löndum en hér á landi eru konur akkúrat þriðjungur þingmanna. Hæst er hlutfallið í Rúanda þar sem tæp 49 prósent þingmanna eru konur en hin norrænu ríkin, Svíþjóð, Noregur, Finnland og Danmörk raða sér í sæti tvö til fimm, Svíar með 45,3 prósenta hlutfall en hin ríkin á bilinu 37-38 prósent. Meðal annarra landa sem eru ofar en Ísland á listanum eru Kúba, Spánn, Kosta Ríka, Mósambík og Argentína.

Í ellefu löndum á listanum er engin kona á þingi, þar á meðal í Sádi-Arabíu þar sem þingmenn eru 150. Þá leiðir listinn einnig í ljós að konur eru aðeins 16,4 prósent þingmanna þegar horft er til allra landanna og hefur hlutfallið aukist um 0,6 prósentustig milli ára. Þá eru aðeins 27 af 262 þingforsetum í heiminum konur. Og þrátt fyrir að hlutur kvenna á þingum hafi aukist í um þremur af hverjum fjórum þingkosningum í fyrra var aðeins fimmtungur þingmanna sem kosinn var í fyrra konur.

Tölurnar eru birtar á sama tíma kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna hittist í fimmtugasta sinn þar sem rætt er um stöðu kvenna í stjórnmálum og aðgerðir til að auka þátttöku þeirra. Þá stendur Alþjóðaþingmannasambandið fyrir þingmannafundi á morgun undir heitinu Jafnrétti kynjanna - framlag þjóðþinga" og þann fund sitja Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, auk Ástu Möller og Jóhönnu Sigurðardóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×