Innlent

Tilkynnt í dag hverjir skipa efstu sætin á lista Framsóknar

MYND/Vilhelm

Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna í Reykjavík, tilkynnir á blaðamannafundi klukkan tvö í dag, hverjir skipa fyrstu fjögur sætin á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Tæpar fimm vikur eru frá prófkjöri flokksins, þar sem Björn Ingi lenti í fyrsta sæti.

Prófkjör Framsóknarflokksins í Reykjavík fór fram laugardaginn 28. janúar síðastliðinn. Þar kepptu þrír einstaklingar um fyrsta sæti listans, þau Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi, Óskar Bergsson og Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem að lokum sigraði.

Fljótlega eftir að prófkjörinu lauk sagði Anna Kristinsdóttir sig af listanum en hún er annar fulltrúi Framsóknarflokksins innnan Reykjavíkurlistans á þessu kjörtímabili á eftir Alfreð Þorsteinssyni. Í prófkjörinu í janúar lenti Anna í öðru sæti og Óskar í því þriðja.

Samkvæmt reglum prófkjörsins var kosningin bindandi fyrir fyrstu efstu tvö sætin og jafnvægi skyldi ríkja milli kvenna og karla í fyrstu fjórum sætunum. Tvær konur lentu í fjórða og fimmta sæti, þær Marsibil Sæmundardóttir og Elsa Ófeigsdóttir. Ef þær tvær og Óskar Bergsson yrðu færð upp um eitt sæti eftir brotthvarf Önnu, næðist að uppfylla markmið listans um jafnvægi milli karla og kvenna í fyrstu fjórum sætunum.

Hins vegar hefur NFS traustar heimildir fyrir því að mjög sé þrýst á að Marsibil verði sett í annað sætið en ekki Óskar. Hún er almennt talin vera í liði með Birni Inga og svo telja margir framsóknarmenn nauðsynlegt að hafa konu í öðru sæti listans. Ef þetta yrði niðurstaðan telja sömu heimildir að Óskar muni ekki sætta sig við sinn hlut, jafnvel þótt hann væri samkvæmt þessari leið í sama sæti og hann var kosinn til - en með fleiri atkvæði á bak við sig ofarlega á listanum en Marsibil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×