Innlent

Deildu um bensínálögur

Bensínverðshækkanir og aukin verðbólga voru í brennidepli við upphaf þingfundar í dag. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, vísaði til þess að ríkisstjórnin hefði talað um að efnahagsástandinu hér væri best líst sem verðbólguskoti. Hann spurði hvort ekki væri réttast í því ljósi að lækka álögur á bensín til að sporna gegn áhrifum bensínverðshækkana á verðbólgu.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði að þegar ákveðið hefði verið að lækka bensínálögur áður hefði það verið vegna tímabundinnar hækkunar. Nú væri ekki útlit fyrir að hækkun eldsneytisverð gengi til baka á næstunni. Hann sagði því verða að horfa heildstætt á þessi mál og taka ákvörðun út frá því.

"Heldur fannst mér snautleg viðbrögð fjármálaráðherra," sagði Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og gagnrýndi fjármálaráðherra fyrir aðgerðaleysi.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og fyrrum fjármálaráðherra benti á að staðan gæti verið mun verri. Hann minnti á að bensínálögum hefði verið breytt úr hlutfallslegu gjaldi af bensínverði í krónutölugjald og sagði jafnframt að breytingar á olíugjaldi yrðu til þess að fleiri færðu sig yfir á dísilbíla sem væru sparneytnari en bensínbílar.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra furðaði sig á orðum Jóns Bjarnasonar og sagði að hann hlyti að vera eini græninginn í heiminum sem mælti fyrir því að álögur á bensín yrðu lækkaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×