Innlent

Gætu byrjað á tvöföldun á Kjalarnesi

Samgönguráðherra telur koma til greina að byrja framkvæmdir vegna lagningar Sundabrautar á Kjalarnesi. Þannig megi losa Sundabrautina úr gíslingu borgarstjórnar Reykjavíkur.

Bjarni Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðuna og hvað liði framkvæmdum við Sundabraut. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra svaraði því til að það væri með ólíkindum hvernig stöðu lagning Sundabrautar væri komin í vegna misvísandi skilaboða úr borgarstjórn Reykjavíkur. Hann sagði Dag B. Eggertsson, borgarstjóraefni Samfylkingar, tala gegn betri vitund þegar hann fjallaði um Sundabraut. Hafði ráðherra á orði að það væri slæmt til þess að orð á borð við dagsatt fengi allt aðra og verri merkingu nú en áður. Vakti þetta hörð viðbrögð í þingsal og kallaði Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, til samgönguráðherra að það væri ömurlegt að ráðast svona að fjarstöddum manni. Því svaraði Sturla að hann hefði því miður ekki verið í borgarstjórn Reykjavíkur í gær og því ekki svarað orðum Dags um sig þar.

Samgönguráðherra kom með nýtt útspil. Hann sagði að þar sem borgarstjórn drægi það út í hið óendanlega að taka ákvörðun um legu Sundabrautar væri óhjákvæmilegt annað en að láta athuga hvort byrja mætti framkvæmdir að norðanverðu. Hugmynd samgönguráðherra gengur út á að vegurinn milli Hvalfjarðarganga og fyrirhugaðrar legu Sundabrautar verði tvöfaldaður áður en lagning Sundabrautar hefst.

Ummæli ráðherra vöktu þó takmarkaða hrifningu flestra stjórnarandstæðinga. Helgi Hjövar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði athafnaleysi ráðherra með eindæmum, svo mjög að Faxaflóahafnir byðust til að leggja Sundabraut fyrir hann og Sjóvá-Almennar væru til í að leggja nýjan Suðurlandsveg fyrir ráðherra þar sem hann kæmist aldrei úr startholunum.

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna, sagði Sjálfstæðismenn vera að setja leikþátt á svið, skella sökinni á litlum aðgerðum á borgaryfirvöld þegar hún lægi í raun og veru hjá þeim sjálfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×