Innlent

Síðasti þingfundadagur fyrir kosningar

Aðeins tvö frumvörp, og jafnvel bara eitt, verða að lögum frá Alþingi í dag, á síðasta þingfundadegi fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þing kemur saman klukkan hálf tvö í dag og er það í síðasta sinn fyrir sveitarstjórnarkosningar í lok mánaðarins.

Útlit er fyrir að tvö frumvörp verði að lögum. Annars vegar er frumvarp um að hætt verði að leggja samræmd próf fyrir framhaldsskólanema. Hitt frumvarpið sem gæti orðið að lögum er frumvarpið um yfirtöku á rekstri Keflavíkurflugvallar. Brýnt þykir að það frumvarp verði að lögum til að eyða óvissu um framtíðina, og ekki síður svo flugmálastjóri geti farið að ráða starfsmenn. Stjórnarandstæðingar vilja þó fá tryggingu fyrir því að þeir sem hafa unnið hjá Bandaríkjaher lækki ekki í launum við að fara yfir til ríkisins.

Þing kemur aftur saman 30. maí og er viðbúið að það standi yfir í tvær vikur og jafnvel lengur. Búast má við að hart verði tekist á um frumvarp iðnaðarráðherra um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar. Ágreiningur er um frumvarpið jafnt innan ríkisstjórnarflokkanna sem á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Eftir því sem næst verður komið áttu deilur um þetta frumvarp einna stærstan þátt í að ekki náðist samkomulag um þinglok.

Frumvarp um hlutafélagavæðingu RÚV verður afgreitt í sumar en þá verða frumvörp um Landhelgisgæsluna og hlutafélagavæðingu flugvalla einnig rædd en bæði eru nokkuð umdeild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×