Innlent

Fara með Stafafellsdóm til Strassborgar

Landeigendur í Stafafelli í Lóni hafa ákveðið að reyna að fara með nýlegan dóm Hæstaréttar fyrir Mannréttindadómstólinn í Strassborg. Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms sem úrskurðaði að virða ætti þinglýst landamerki sunnan og norðan Jökulsár í Lóni frá árinu 1914.

Samkvæmt úrskurði Óbyggðanefndar misstu eigendur Stafafells allt að helming lands síns. Farið var með málið fyrir héraðsdóm sem úrskurðaði landeigendum í vil. Dómurinn taldi að eignasöguna mætti rekja aftur til ársins 1641 en landið var áður kirkjujörð. Á Stafafelli var prestssetur fram til 1920 en þá var orðið heimilt að selja kirkjujarðir. Seinasti presturinn á jörðinni, séra Jón Jónsson, keypti jörðina árið 1913.

Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu á fimmtudag að landið væri þjóðlenda enda ætti það sér ekki stað í eldri heimildum en frá árinu 1914 að landið væri í eigu Stafafells. Hæstiréttur taldi hins vegar að landeigendur ættu áfram rétt til að nota svæðið sem afrétt.

Gunnlaugur Ólafsson í Stafafelli segir dóminn furðulegan í ljósi þess að landið hafi verið keypt af ríkinu árið 1913 og landamerkjabréfið frá 1914 sé byggt á því. Það væri algerlega ný staða að landeigendur þurfi að sanna eignarrétt aftur til Landnámu til að halda jörðum sem þeir kaupi sannarlega af ríkinu. Hann segir að fljótlega verði hafist handa til að reyna að fá málið tekið upp hjá Mannréttindadómstólnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×