Fótbolti

Mancini rekinn frá Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini, fyrrum knattspyrnustjóri Inter.
Roberto Mancini, fyrrum knattspyrnustjóri Inter. Nordic Photos / AFP

Inter Milan hefur sagt knattspyrnustjóranum Roberto Mancini upp störfum og er hann nú sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Chelsea.

Mancini hefur stýrt Inter til sigurs í ítölsku deildinni þrjú ár í röð en engu að síður hefur framtíð hans verið í lausu lofti síðan í mars.

Eftir að liðið féll úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa tapað fyrir Liverpool sagði Mancini að hann myndi hætta í lok leiktíðarinnar. Inter sagði í gær að það væri vegna þessara ummæla sem hann væri látinn fara nú.

Umboðsmaður Mancini sagði fyrr í vikunni að Mancini myndi hætta hjá Inter og að Jose Mourinho yrði ráðinn í staðinn.

Avram Grant var rekinn frá Chelsea um helgina og Henk ten Cate var svo látinn fara í gær. Það er því ljóst að Chelsea er að rýma fyrir nýjum knattspyrnustjóra og þykir Mancini einna líklegastur arftakinn ásamt þeim Mark Hughes og Luiz Felipe Scolari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×