Fótbolti

Zlatan er betri en Ronaldo

Zlatan Ibrahimovic á skilið að vinna gullknöttinn að mati Mourinho
Zlatan Ibrahimovic á skilið að vinna gullknöttinn að mati Mourinho AFP

Jose Mourinho þjálfari Inter er þegar farinn að hita upp fyrir viðureignina við Manchester United í Meistaradeildinni. Hann segir að sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic sé betri knattspyrnumaður en Cristiano Ronaldo hjá United.

Mourinho lét í veðri vaka að nokkrir knattspyrnumenn í heiminum væru betri en landi hans Ronaldo, sem nýverið var kjörinn leikmaður ársins og fékk gullknöttinn eftirsótta.

"Þegar ég hugsa um góða leikmenn sé ég fyrir mér menn eins og Kaka, Ibrahimovic og Leo Messi, en hannn er fyrirbæri og á eftir að vinna gullknöttinn á næstu tveimur eða þremur árum," sagði Mourinho.

"Ronaldo er góður leikmaður, en hann er sannarlega ekki sá besti. Hann vann gullknöttinn af því lið hans vann meistaradeildina og úrvalsdeildina. Hann spilaði og skoraði mikið, en Ibrahimovic er betri í mínum huga," sagði Portúgalinn í samtali við ítalska fjölmiðla.

"Zlatan elskar fótbolta. Hann er með stórt hjarta og er tilfinningalega grimmur. Hann ætti að vinna gullknöttinn," sagði Mourinho.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×