Skoðun

Flutningskostnaður hækkaður

Einar K. Guðfinnsson skrifar
Ríkisstjórnin kann að forgangs­raða; eftir sínu höfði. Nú hefur hún tekið ákvörðun um að hækka flutningskostnað á landsbyggðinni með sérstakri skattlagningu undir yfirskini umhverfisverndar. Það er illt að vita til þess að sá ágæti málstaður umhverfisvernd, skuli misnotaður af ríkisstjórn sem skirrist ekki við að leggja með sérstökum hætti byrðar á íbúa landsbyggðarinnar. En þetta kallar forsætisráðherrann að ríkisstjórnin sé að jafna byrðarnar af nýrri skattheimtu. Sem sagt breiðu bökin finna menn sérstaklega á landsbyggðinni. Þá vitum við það.

En ríkisstjórnin ber ekki ein ábyrgð á þessari forgangsröðun. Það gera líka þingmenn hennar sem með samþykki sínu á skattatillögum ríkisstjórnarinnar eru eins konar ábyrgðarmenn málsins. Það á líka við um þingmenn ríkisstjórnarflokkanna á landsbyggðinni.

Alls staðar nema hér er kolefnisskattlagning hugsuð til þess að leysa aðra skattlagningu af hólmi. Hér er hún viðbótarskattur, en hefur ekkert með umhverfismál að gera. Nema að búa til skálkaskjól fyrir ríkisstjórnina. Fórnarlömbin eru meðal annars ferðaþjónusta, sjávarútvegur, einstök fyrirtæki og landsbyggðin.

Við vitum að eftir því sem vegakerfið hefur batnað hefur flutningskostnaður lækkað, þó flestir vildu sjá enn meiri árangur. Nýleg dæmi frá Vestfjörðum sýna þetta. Þar lækkaði flutningskostnaður með nýjum vegum og styttri leiðum. Nú ætlar ríkisstjórnin að strika það út sem áunnist hefur í þessum efnum, eftir áralanga baráttu; og það með einu pennastriki.



Og á sama tíma boðar fjárlagafrumvarpið að engar – og ég segi og skrifa – alls engar nýjar nýframkvæmdir verði boðnar út í vegagerð á næsta ári. Það er ekki nóg með að þannig séu slegnar út af borðinu öll fyrirheit um vegabætur. Þessar ákvarðanir, hækkun skatta og útboðsstopp, slá kalda meira og minna alla verktakastarfsemi út um landsins byggðir.

Einyrkjarnir, dugnaðarforkarnir, sem áratugum saman hafa kannski byggt upp fyrirtæki sín, sjá nú afrakstur erfiðis síns að engu verða. Og það vegna meðvitaðrar stjórnarstefnunnar.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×