Fótbolti

Ronaldinho kemst ekki í brasilíska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho fagnar einu níu marka sinna í vetur.
Ronaldinho fagnar einu níu marka sinna í vetur. Mynd/AFP
Ronaldinho er ekki í landsliðshóp Brasilíumanna fyrir vináttulandsleik á móti Írum í London 2. mars næstkomandi en það er síðasti skipulagði landsleikur Brasilíu fyrir HM í sumar.

Það var mikil pressa á þjálfaranum Carlos Dunga að velja Ronaldinho á ný í landsliðið og kom hún frá bæði blaðamönnum og brasilísku þjóðinni. Dunga ákvað hinsvegar að hlusta ekki á þær raddir heldur halda sig við þá leikmenn sem hann hefur notað síðustu misserin.

Hinn 29 ára gamli Ronaldinho hefur ekki spilað landsleik síðan í byrjun ársins 2009 en hann hefur fengið uppreisn æru á síðustu vikum eftir frábæra frammistöðu sína með AC Milan.

Ronaldinho hefur skorað 9 mörk í 18 deildarleikjum með AC á þessu tímabili sem er einu marki meira en hann skoraði í 29 deildarleikjum með félaginu á síðasta tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×