Fótbolti

Mourinho fór í fýluferð til Þýskalands

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar

Jose Mourinho, þjálfari Inter, hefur sagt að ferðalag hans til Þýskalands þar sem hann fór til að skoða Bayern-liðið hafi verið tilgangslaust en hann fór og fylgdist með leik liðsins gegn Hertha Berlin. Bayern sigraði leikinn 3-1 og fagnaði meistaratitlinum þar í landi eftir leikinn.

Inter mætir Bayern í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og ætlaði Mourinho að ná sér í góða punkta en eftir að leiknum lauk var blað hans hálftómt.

„Þetta var nú bara eins og æfingaleikur. Bayern var þegar búið að tryggja sér titilinn og Hertha Berlin var fallið," sagði Mourinho við Telelombardia.

„Ég sá leikmennina og hvernig þeir haga sér á vellinum en það er meira gagn í því að horfa á Bayern á upptökum. Ég græði meira á því að horfa á hvernig þeir voru að spila í síðustu leikjum í Meistaradeildinni heldur en það sem að ég sá í þessum leik," bætti Mourinho við.

„Það er erfitt að hugsa um Bayern leikinn þegar að við eigum tvo mikilvæga leiki eftir í deildinni á Ítalíu. Við verðum líka að einbeita okkur að því að sigra Chievo og Siena því þeir leikir skipta miklu í baráttunni í deildinni," sagði Mourinho að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×