Fótbolti

Umboðsmaður: Efast um að Hiddink taki við Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink.
Guus Hiddink. Nordic Photos / AFP

Umboðsmaður Guus Hiddink efast um að Hollendingurinn taki við stöðu knattspyrnustjóra Inter en segir hann hafa verið efstan á óskalista félagsins.

Jose Mourinho hætti nýverið sem stjóri Inter eftir að liðið vann þrennuna undir hans stjórn. Mourinho var í gær ráðinn knattspyrnustjóri Real Madrid á Spáni.

Wesley Sneijder, landi Hiddink og leikmaður Inter, sagði í síðustu viku vilja sjá Hiddink taka við af Mourinho en umboðsmaður þess síðarnefnda efaðist um það í samtali við ítalska fjölmiðla. Hann sagði Inter hafa sett sig í samband við sig.

„Áhugi Inter var til staðar. Félagið hafði samband við mig í síðustu viku og sagði að hann væri efstur á óskalista þess," sagði umboðsmaðurinn Cees van Nieuwenhuizen.

„En ég útskýrði að Hiddink var nýbúinn að semja við tyrkneska knattspyrnusambandið og það væri mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að ráða sig til Inter," sagði hann en Hiddink mun taka við þjálfun tyrkneska landsliðsins í haust.

„Inter þyrfti því að sannfæra tyrkneska sambandið um að sleppa honum. En ég tel að félagið sé nú byrjað að hugsa um aðra kosti í þjálfarastöðuna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×