Fótbolti

Ronaldinho búinn að semja við æskufélagið sitt Gremio

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho hefur verið út í kuldanum hjá AC Milan í vetur.
Ronaldinho hefur verið út í kuldanum hjá AC Milan í vetur. Mynd/AP
Brasilíumaðurinn Ronaldinho er á heimleið en hann hefur gert samning við æskufélagið sitt Gremio og er því væntanlega búinn að spila sinn síðasta leik með AC Milan. Paulo Odone, forseti Gremio, staðfesti það í kvöld að félagið væri búið að semja við Ronaldinho.

Ronaldinho er þrítugur en hann hóf ferill sinn með Gremio árið 1998 þegar hann var aðeins 18 ára. Ronaldinho skoraði 21 mark í 44 leik með liðinu frá 1998-2001.

Ronaldinho fór síðan til Paris Saint-Germain í Frakklandi, hann lék síðan í fimm ár með Barcelona (2003-2008) og hefur verið undanfarin tímabil með ítalska liðinu AC Milan.

Ronaldinho er ennþá með samning við AC Milan og því á umboðsmaður hans enn eftir að semja um samningslok við ítalska félagið en með komu Zlatan Ibrahimovic, Robinho og nú síðast Antonio Cassano er ljóst að Ronaldinho var ekki að fá að spila mikið með liðinu á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×