Fótbolti

Moggi í lífstíðarbann frá knattspyrnu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Moggi fyrir miðju ásamt fyrrverandi stjóra Juventus Fabio Capello
Moggi fyrir miðju ásamt fyrrverandi stjóra Juventus Fabio Capello Mynd/Nordic Photos/Getty
Luciano Moggi, fyrrum framkvæmdarstjóri ítalska knattspyrnuliðsins Juventus, hefur verið dæmdur í lífstíðarbann frá afskiptum af knattspyrnu af ítalska knattspyrnusambandinu.

Moggi fékk fimm ára bann frá afskiptum af knattspyrnu árið 2006 fyrir sinn þátt í hneykslismáli sem skók ítalska knattspyrnu. Ítalska lögreglan svipti þá hulunni af vafasömum samskiptum knattspyrnufélaga við dómara og var fimm félögum refsað. Hörðustu refsinguna fékk Juventus, þar sem Moggi stjórnaði málum, en liðið var dæmt niður um deild og tveir meistaratitlar félagsins dæmdir ógildir.

Auk Moggi var samstarfsmaður hans hjá Juventus, Antonio Giraudo, dæmdur í ævilangt bann frá knattspyrnu.

Annað hneykslismál er nú til rannsóknar á Ítalíu og er hagræðing úrslita aftur vandamálið. Rannsóknin beinist aðallega að neðri deildum ítalskrar knattspyrnu. Þó er einn leikur í Serie A til skoðunar.

Meðal leikmanna sem hafa verið nefndir í tengslum við málið er fyrrum landsliðsmaðurinn Guiseppe Signori. Hann var um tíma í stofufangelsi en hefur nú fengið sig lausan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×