Fótbolti

Sneijdar spilar gegn Milan á laugardaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sneijder var lykilmaður í liði Inter sem fór alla leið í öllum keppnum tímabilið 2009-2010.
Sneijder var lykilmaður í liði Inter sem fór alla leið í öllum keppnum tímabilið 2009-2010. Nordic Photos/AFP
Hollendingurinn Wesley Sneijder verður í liði Inter sem mætir erkifjendunum í AC Milan á laugardag. Knattspyrnustjóri Inter Gian Piero Gasperini staðfesti þetta í dag.

Leikurinn er árleg viðureign Ítalíumeistaranna og bikarmeistaranna og fer fram í Kína.

„Hann hefur spilað með okkur undanfarið, æft með okkur og spilar á laugardaginn,“ sagði Gasgperini við ítalska fjölmiðla og bætti við: „Það er ekkert vandamál með Sneijder.“

Sneijder hefur verið orðaður við Manchester United undanfarnar vikur. Í dag náði fiskisagan af félagaskiptum Sneijder hámarki þegar enskir slúðurmiðlar greindu frá því að Inter hefði samþykkt kauptilboð United.

Alex Ferguson knattspyrnustjóri United hefur ítrekað neitað sögusögnum um að félagið eigi í viðræðum við Inter. Sneijder er einbeittur þegar kemur að leiknum gegn Milan á laugardag.

„Ég er fullviss að við getum gert góða hluti og ég mun gera allt sem ég get til þess að sjá til þess. Við viljum vinna, til þess erum við hingað komnir,“ sagði Sneijder.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×