Fótbolti

Real Madrid skilaði mestum tekjum sjötta árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/AP
Deloitte hefur enn á ný tekið saman lista sinn yfir þau fótboltafélög sem skiluðu mestu tekjum í evrópska fótboltanum og það hefur ekkert breyst á toppnum.

Barcelona hefur unnið nánast allt inn á vellinum undanfarin ár en erkifjendur í Real Madrid eru samt áfram það félag sem skilar mestu tekjunum.

Real Madrid er í efsta sætinu sjötta árið í röð en Deloitte-menn taka þar inn sjónvarpstekjur, tekjur af miðasölu og tekjur af auglýsingum.

Það er ekki bara Real Madrid sem heldur velli því sex efstu félögin eru í sama sæti og þau voru í fyrra. Tölurnar eru frá 2009-2010 tímabilinu.

Manchester City kemst ekki inn á topp tíu að þessu sinni (11. sæti) en það má búast við að City-menn rjúki upp töfluna á næstu árum enda allt til alls á þeim bænum þessi misserin.

England á flest félög inn á topp tíu eða fjögur, þrjú liðanna koma frá Ítalíu, tvö frá Spáni og svo eitt frá Þýskalandi. Ensk lið eru síðan í 11. (Manchester City) og 12. sæti (Tottenham).

Tekjuhæstu félögin í evrópska fótboltanum 2009-10:

1. Real Madrid 438,6 milljónir evra

2. Barcelona 398,1

3. Manchester United 349,8

4. Bayern Munchen 323,0

5. Arsenal 274,1

6. Chelsea 255,9

7. AC Milan 235,8

8. Liverpool 225,3

9. Internazionale 224,8

10. Juventus 205




Fleiri fréttir

Sjá meira


×