Fótbolti

Aquilani búinn að skrifa undir samning við AC Milan til 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alberto Aquilan.
Alberto Aquilan. Mynd/Nordic Photos/AFP
Alberto Aquilani er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við ítalska liðið AC Milan þótt að hann komi þangað aðeins á láni frá Liverpool út þessa leiktíð. AC Milan fær hinsvegar forkaupsrétt á Alberto Aquilani spili hann 25 leiki eða fleiri með liðinu á tímabilinu og það má búast við því að hans framtíð verði því í Mílanóborg.

Aquilani er 27 ára miðjumaður sem kom til Liverpool frá Roma árið 2009. Hann var óheppinn með meiðsli á fyrsta tímabilinu sínu á Anfield og Liverpool lánaði hans síðan í fyrra til ítalska liðsins Juventus þar sem Aquilani stóð sig vel.

Aquilani mun fá það verkefni að leysa af Andrea Pirlo á miðju AC Milan í vetur en Pirlo samdi við Juventus fyrir þetta tímabil. Aquilani vildi komast aftur í ítalska boltann en hann er að berjast um sæti í landsliðshóp Ítala fyrir Evrópukeppnina næsta sumar.

Aquilani lék alls 18 leiki með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni þar af kom hann inn á sem varamaður í 9 þeirra. Aquilani var með eitt mark og sex stoðsendingar á þeim 824 mínútum sem hann spilaði í ensku úrvalsdeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×