Skoðun

Verjum Ríkisútvarpið

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Dapurlegar fregnir berast okkur nú frá Ríkisútvarpinu, almannaútvarpinu okkar. Ljóst er að Ríkisútvarpið hefur búið við skertan kost undanfarin ár eins og aðrar stofnanir hins opinbera eftir hrun. Um leið hefur flestum orðið ljósari þörfin á öflugum almannaþjónustumiðli í samfélaginu sem hefur gríðarmiklu hlutverki að gegna við að tryggja upplýsta og lýðræðislega umræðu, sinna menningu og mannlífi og veita upplýsingar þegar óvæntir atburðir verða.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi Íslendinga ný lög um Ríkisútvarpið. Þau voru afrakstur mikillar vinnu þar sem leitast var við að skilgreina almannaþjónustuhlutverk útvarpsins. Ætlunin var ennfremur að breyta stjórnarfyrirkomulagi stofnunarinnar þannig að valnefnd, tilnefnd af Alþingi, samtökum listamanna og háskólasamfélaginu, gerði tillögu til ráðherra að stjórn sem fengi skýrara en um leið víðtækara hlutverk en áður. Síðast en ekki síst voru lagðar til ákveðnar takmarkanir á þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en á móti var lagt til að útvarpsgjaldið, sem allir greiða, ætti að renna óskert til útvarpsins.

Nú er það hins vegar svo að meðal fyrstu verka nýrrar ríkisstjórnar var að bakka í gamalt fyrirkomulag í stjórnarskipun þar sem flokkarnir á Alþingi tilnefna í stjórn. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir að ákvæðinu um að útvarpsgjaldið renni óskert til RÚV verði frestað til 2016 en það verði um leið lækkað þannig að tekjur RÚV aukist ekki að sama skapi. Og síðasta útspil ríkisstjórnarinnar er að boða tillögur um að teknar verði til baka að hluta þær takmarkanir sem settar voru á öflun auglýsingatekna.



Í stuttu máli hefur staða Ríkisútvarpsins verið veikt stórlega á tíma þar sem hefði átt að vera svigrúm til að bæta hana. Afleiðingarnar eru fjöldauppsagnir á starfsmönnum Ríkisútvarpsins og dapurleg framtíðarsýn þar sem búast má við minni getu til að sinna því mikilvæga hlutverki sem stofnunin hefur að gegna í nútímalegu lýðræðissamfélagi. Við hljótum að gera kröfu um skýra forgangsröðun stjórnenda RÚV í þágu þess hlutverks og skýran vilja stjórnvalda til að sinna því.

Fyrirætlunum um skerðingu útvarpsgjalds er hægt að breyta við afgreiðslu fjárlaga ef þingmönnum er annt um hér verði áfram rekinn öflugur almannaþjónustumiðill og vilja tryggja framtíð hans.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×