Viðskipti innlent

Stjórnvöld þrýsta kvótanum til stærri útgerða með veiðigjöldum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Há veiðigjöld ógna smærri byggðum, segir framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, og spáir því að kvótinn haldi áfram að færast á færri hendur og til stærri útgerða, þótt stjórnvöld segist vilja annað.

Sala togarans Gullvers á Seyðisfirði til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í síðasta mánuði er nýjasta dæmið um færslu veiðiheimilda frá lítilli útgerð til stórrar.

Togarinn Gullver á Seyðisfirði. Hann hefur nú verið seldur til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Fáskrúðsfjörður er álíka fjölmenn byggð og Seyðisfjörður og þar er Loðnuvinnslan burðarás samfélagsins; fyrirtæki sem er að mestu í eigu íbúanna á staðnum. Framkvæmdastjórinn segir veiðileyfagjöldin ógna smærri byggðum.

„Menn fóru alltof hátt í þau, sérstaklega bolfiskmegin,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og kaupfélagsstjóri á Fáskrúðsfirði, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.  Hann segir að samþjöppunin hafi orðið heilmikil fyrir vikið. Hjá minni útgerðum hafi menn orðið hræddir og fóru að selja, mikil samþjöppun hafi orðið eftir að veiðigjöldin voru sett á. 

„Ég veit að þeir flokkar, sem stóðu fyrir því, vildu ekki samþjöppun, en hún er engu að síður staðreynd,“ segir Friðrik Mar. 

Friðrik segir að í þessu 700 manna samfélagi muni Loðnuvinnslan í ár greiða nærri hálfan milljarð króna í veiðileyfagjöld og tekjuskatt, þar af rétt tæpar 200 milljónir króna í veiðileyfagjöld, sem hann kallar landsbyggðarskatt.

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði greiðir um 200 milljónir króna í veiðileyfagjöld á þessu ári.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Það held ég að það sé það alvarlega í því að það er raunverulega verið að gera minni útgerðum mjög erfitt fyrir. Þá á ég við þar sem einn bátur er og kannski engin vinnsla, og svo framvegis. 

Ég held að stjórnvöld vilji það ekki, en engu að síður er það staðreynd að þau eru að búa svo um hnútana að það verði.“ 

Í þættinum „Um land allt“ síðastliðinn þriðjudag var fjallað um kaupfélagsútgerð og fiskvinnslu á Fáskrúðsfirði. Í fyrra var fjallað um samrekstur togara og fiskvinnslu á Seyðisfirði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×