Skoðun

„Forstjórabústaður“ Orkuveitunnar og umhverfismál Nesjavallavirkjunar

Bjarni Bjarnason skrifar

Fréttablaðið og Stöð 2 hafa undanfarna daga fjallað um svokallaðan forstjórabústað Orkuveitu Reykjavíkur við Þingvallavatn og um þá ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar, sem tekin var í lok júní síðastliðnum, „að leita leiða til að ljúka nýtingu landsins undir sumarhús“ eins og segir orðrétt í fundargerð. Mér sýnist að umfjöllunin hafi verið nokkuð brotakennd og vil ég reyna að fylla í myndina með þessari grein.



Hitaveita Reykjavíkur keypti Nesjavallajörðina árið 1964 vegna vaxandi þarfar fyrir heitt vatn. Jörðin nær frá norðausturbrún Hengilsins til strandar Þingvallavatns eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd. Vatnsbakkinn liggur að mestu í úfnu hrauni. Jörðinni fylgdi lítill sumarbústaður í Riðvík og hefur hann stundum verið kallaður forstjórabústaðurinn innan Orkuveitunnar. Að auki eru þar tíu aðrir sumarbústaðir í einkaeigu meðfram vatnsbakkanum. Einkabústaðirnir standa á leigulandi úr Nesjavallajörðinni en hún liggur utan Þingvallaþjóðgarðsins.



Forstjórabústaðurinn“

Sumarbústaðurinn í Riðvík var byggður árið 1946 og er hann 47 fermetrar að stærð. Hann var byggður samkvæmt kröfum þess tíma og byggingarefnið var flutt á ísi á Þingvallavatni því enginn var þá vegurinn. Hitaveita Reykjavíkur byggði bátaskýli við bústaðinn árið 1998. Ég þekki ekki notkunarsögu bústaðarins í Riðvík en nafngiftin bendir til þess að hann hafi verið notaður af forstjórum Orkuveitunnar að einhverju marki eða að þeir hafi haft ráðstöfunarrétt yfir honum, hver sem notkunin kann að hafa verið.



Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga árið 2010 tók ný stjórn við Orkuveitunni. Stjórnin réð nýjan forstjóra tímabundið til hálfs árs og tóku nýja stjórnin og forstjórinn meðal annars þá ákvörðun að afnema öll sérréttindi stjórnenda í Orkuveitunni. Einkaafnot eða forgangur að húseignum Orkuveitunnar heyrðu þar undir. Ég hóf störf í Orkuveitunni 1. mars 2011. Ákvæði um einkaafnot mín af bústaðnum í Riðvík er ekki að finna í ráðningarsamningi og vissi ég ekki á þeim tíma að bústaðurinn væri til. Sú hugmynd var rædd um þetta leyti að afhenda starfsmannafélagi Orkuveitunnar bústaðinn til útleigu fyrir félagsmenn. Bústaðurinn stendur á viðkvæmu vatnsverndarsvæði sem útilokaði þá hugmynd. Notkun og örlög bústaðarins lentu því í biðstöðu, sem nú hefur verið rofin með framangreindri samþykkt stjórnar Orkuveitunnar.

Við þingvallavatn Horft til norðurs yfir Nesjavelli, Nesjahraun og Þingvallavatn. Vatnstökuhúsið á Grámel er ofarlega til hægri á myndinni og sumarhúsið við Riðvík þar steinsnar frá. Sumarhúsalóðirnar eru niðri við vatnið undan Nesjahrauninu. Mynd: Gretar Ívarsson/OR

Rekstur, umhverfismál og sala

Mikill rekstrar- og skuldavandi blasti við stjórn Orkuveitunnar í upphafi árs 2011. Var þá samin víðtæk áætlun um endurreisn, Planið svokallaða, sem tók gildi 1. apríl það ár. Einn af fimm mikilvægum þáttum Plansins er sala eigna sem ekki heyra undir kjarnastarfsemi Orkuveitunnar. Listi var gerður yfir þær eignir sem áformað var að selja og voru sumarbústaðalóðirnar tíu á bakka Þingvallavatns þar á meðal. Forstjóra var falið að selja lóðirnar þegar leigusamningum lyki.



Bústaður Orkuveitunnar í Riðvík var ekki á sölulistanum. Ástæðan er sú að bústaðurinn stendur nánast ofan á vatnsbóli Nesjavallavirkjunar á Grámel, þaðan sem dælt er 2000 lítrum á sekúndu af ferskvatni sem hitað er í virkjuninni og dælt áfram til Reykjavíkur.



Stjórnendur Orkuveitunnar hafa hugað mjög að umhverfismálum undanfarin ár eftir að hæstu fjármálaöldurnar lægði. Starfsemi virkjananna á Nesjavöllum og á Hellisheiði hefur verið í brennidepli. Hraunið milli Nesjavallavirkjunar og Þingvallavatns og vatnsbakkinn fyrir landi Nesjavalla tengjast umhverfismálum virkjunarinnar á tvennan hátt. Annars vegar er framangreind vatnstaka á Grámel, en þar er nú afkastamesta vatnsból landsins. Vatnið er bæði nýtt fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu og sem neysluvatn á virkjunarsvæðinu. Hins vegar er hraunið afrennslisleið fyrir vatn frá Nesjavallavirkjun, sem dreifist um hraunið neðanjarðar á ferð sinni til Þingvallavatns.



Við nánari skoðun var það niðurstaða stjórnenda Orkuveitunnar að óráðlegt væri að selja einstaklingum land á svo viðkvæmum stað og missa þannig forræði yfir því til frambúðar. Stjórnendur Orkuveitunnar óskuðu eftir því við stjórn fyrirtækisins að afturkalla ákvörðun um sölu á sumarbústaðalóðunum, sem hún samþykkti. Stjórnin ákvað jafnframt að fela forstjóra að leita leiða til að ljúka nýtingu landsins fyrir sumarhús, eins og fyrr er getið. Viðræður við eigendur sumarhúsanna tíu standa nú yfir og eru ýmsir þættir til skoðunar. Ljóst er að það mun taka nokkurn tíma að ná endanlegu markmiði og þarf Orkuveitan að huga að góðu meðalhófi í framgöngu.



Bústaður Orkuveitunnar í Riðvík stendur næst vatnsbólinu á Grámel og því mun hann víkja fyrstur en ákveðið hefur verið að rífa hann næsta sumar.




Skoðun

Sjá meira


×