
Ef þú bara þorir, Bjarni Benediktsson
1. Þú sagðir í viðtölum við Morgunblaðið og í Sprengisandi í sumar að þú ætlaðir að sjá til þess að heilbrigðiskerfið yrði endurreist og betur hlúð að velferðarkerfinu almennt. Þú lést meira að segja hafa eftir þér að þú litir svo á að það væri fyrst og fremst hlutverk ríkisins að sjá um þá sem minna mega sín. Hinir gætu séð um sig sjálfir. Síðar sendirðu frá þér fimm ára áætlun um ríkisfjármál sem ber þess lítil merki að þú hafir meint það sem þú sagðir. Þetta er kannski svipað því og þegar þú sagðir margsinnis á sínum tíma að þú ætlaðir ekki að greiða atkvæði með seinna IceSave-frumvarpinu, en gerðir það samt að endingu. Þessi tvö, ásamt mýmörgum öðrum dæmum, gera það að verkum að fólk í kringum þig er farið að gefa í skyn að þér sé skringilega tamt að tjá skynsamlegar skoðanir sem þú farir ekki eftir; það sé gjarnan lítið að marka það sem þú segir.
2. Íslendingar eru upp til hópa á þeirri skoðun að heilbrigðiskerfi landsins sé í rusli og þarfnist endurreisnar. 86.500 þeirra skrifuðu undir kröfu um að það yrði gert með því að verja 11 prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála. Sjálfstæðisflokkurinn undir þinni stjórn sendi hins vegar frá sér myndefni um daginn þar sem hann nefndi endurreisn heilbrigðiskerfisins sem eitt af afrekum ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Það er því ekki bara svo að þið sýnið þess engin merki í fimm ára áætluninni að þið mynduð taka á vanda heilbrigðiskerfisins ef þið yrðuð kosnir til áframhaldandi valda, þið viðurkennið ekki að hann sé fyrir hendi.
3. Sjúklingar á Íslandi greiða beint úr sínum vasa 18 prósent af kostnaði við heilbrigðisþjónustu landsins. Afleiðingin af því er meðal annars sú að þeir sem minna mega sín hafa ekki efni á því að leysa út lyf í lok mánaðar og verða að fresta lífsnauðsynlegum aðgerðum. Þú hefur endurtekið margsinnis í fjölmiðlum að þú lítir svo á að það sé ekki ásættanlegt að aðgangur fólksins í landinu að heilbrigðiskerfinu markist af efnahag þess. Fimm ára áætlun ríkisfjármála bendir ekki til að það standi til að breyta greiðsluþátttökunni svo um muni og það er meira að segja á ferli uppkast að þingsályktunartillögu frá ríkisstjórninni um heildarskipulag heilbrigðismála, þar sem gert er ráð fyrir að á næstu fimm árum verið greiðsluþátttakan minnkuð úr 18 prósentum í 15 prósent? Enn einu sinni segirðu eitt og virðist ætla að framkvæma eitthvað allt annað (eða ekkert).
4. Þegar við sátum saman í sumar og ræddum heilbrigðiskerfið frá hinum ýmsu hliðum fannst mér lítið sem ekkert bera á milli skoðana okkar um hvað væru æskileg og jafnvel nauðsynleg markmið. Það reyndist hins vegar erfitt að fá þig til þess að tjá þig um það hvernig og hvenær þú ætlaðir að ná þessum markmiðum. Þegar ég hvatti þig til þess að afnema greiðsluþátttökuna fyrir kosningar brástu við með því að segja að þú gætir ekki ráðist í slíka aðgerð án þess að skilja til hlítar afleiðingar hennar. Í þessum viðbrögðum þínum endurspeglast munurinn á þér og meiri hluta fólksins í landinu. Meiri hluti fólksins í landinu lítur svo á að það verði að afnema greiðsluþátttökuna strax án tillits til afleiðinga, vegna þess að hún sé brot á þeim sjálfsögðu mannréttindum sem jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé án tillits til efnahags. Það er svo sjálfstætt umhugsunarefni að þú gerir kröfu um hlítarskilning í þessu máli. Í fyrsta lagi er ljóst að í þessu máli ertu næmari fyrir kröfum skriffinna ráðuneytisins um að þær breytingar sem þú framkvæmir falli að reiknilíkönum þeirra heldur en fyrir kröfum fólksins um réttlátan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Í öðru lagi er ólíklegt að það sé hægt að sækja djúpan skilning á afleiðingum afnáms greiðsluþátttökunnar vegna þess að það eru einfaldlega of margar óþekktar stærðir í jöfnunni. Það er því líklegt að þegar þú krefst hlítarskilnings á afleiðingunum, áður en ráðist verði í framkvæmdir, sértu raunverulega að segja að þú ætlir ekki að gera neitt. Ég er hins vegar ekki viss um að þú gerir þér grein fyrir þessu sjálfur.
5. Það er vel þess virði að velta því fyrir sér hvar og hvernig menn taka áhættu. Þú ert greinilega áhættufælinn í stjórnmálum, sem ráðherra. Þú vilt ekki taka þá áhættu sem felst í því að setja meira fé í heilbrigðiskerfið og afnema greiðsluþátttökuna. Þú ert hins vegar greinilega ekki áhættufælinn í viðskiptum eins og reynslan sýnir. Þú ert heldur ekki áhættufælinn þar sem stjórnmál og viðskipti skarast, sérstaklega ekki þegar um er að ræða viðskipti fjölskyldu þinnar. Þú ert meira að segja reiðubúinn til þess að taka pólitíska áhættu til þess að alls konar viðskipti geti átt sér stað, sem í augum fólksins líta út fyrir að vera vafasöm og endurspegla spillingu. Nú er ég alls ekki að segja að þú sért spilltur eða hafir gert eitthvað af þér. Ég er helst á því að svo sé ekki. Það lítur bara þannig út, sem er ekki gott. Reynslan sýnir að menn taka mesta áhættu á þeim sviðum þar sem þeim líður best. Það er alveg ljóst Bjarni að þér líður betur í viðskiptum en í stjórnmálum, nema þegar þér tekst að blanda viðskiptum saman við stjórnmál þannig að erfitt sé að skilja á milli. Bjarni, þú ert góður maður og skýr og skemmtilegur og kannt að baka afmælisköku, en þú ert fyrst og fremst bisnissmaður á röngum stað.
Því hvet ég þig Bjarni til þess að segja af þér ráðherraembætti og formennsku í Sjálfstæðisflokknum og snúa þér að því sem þér er eiginlegt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft tekið þá áhættu sem felst í því að hlúa að þeim sem minna mega sín í íslensku samfélagi. Þú ert að koma í veg fyrir að hann geri það núna og á þann hátt ertu að skemma fyrir flokknum. Dragðu lærdóm af örlögum Sigmundar Davíðs og segðu af þér áður en þér verður hent út á eyrunum.
Annar möguleiki væri að þú settist fyrir framan mig í sjónvarpssal í beinni útsendingu og sýndir mér og þjóðinni allri fram á að ég hafi rangt fyrir mér, ef þú bara þorir Bjarni Benediktsson. Og ef þér finnst orð mín ósanngjörn, ekki gleyma því að réttlætið sigrar alltaf að lokum eins og sést best á því að Bob Dylan var veittur Nóbelinn í bókmenntum um daginn.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Skoðun

Tollar – Fyrir hverja?
Valdimar Birgisson skrifar

Þau eru fá en þörfin er stór
Sif Huld Albertsdóttir skrifar

Samvinnufélög, valkostur í atvinnurekstri
Elín H. Jónsdóttir,Guðrún Johnsen skrifar

Leiðin til helvítis
Jón Pétur Zimsen skrifar

Eitruð kvenmennska
Ása Lind Finnbogadóttir skrifar

Hinn nýi íslenski aðall
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Samningur HSÍ við Rapyd – Opið bréf til frambjóðenda í formannskjöri
Hópur stuðningsmanna Íslands í handbolta skrifar

Gjaldskrár munu ekki virka til að koma aftur framleiðslu af stað
Sæþór Randalsson skrifar

Mannúð og samvinna á tímum sögulegra þjáninga
Sólrún María Ólafsdóttir skrifar

Hvernig getum við notað nýjar ráðleggingar um mataræði?
Óla Kallý Magnúsdóttir,Jóhanna E. Torfadóttir skrifar

Þegar rykið hefur sest
Jörgen Ingimar Hansson skrifar

Búum til réttlátt lífeyriskerfi
Hrafn Magnússon skrifar

Á undan jarðýtu komi fornleifafræðingur…
Stefán Pálsson skrifar

Hin raunverulega byggðastefna
Jón Þór Kristjánsson skrifar

Sameining Garðabæjar og Hafnarfjarðar – kostir – ókostir - skynsemi
Ó. Ingi Tómasson skrifar

Rúmir 30 milljarðar í fangelsi
Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sérstök staða orkusveitarfélaga!
Guðmundur Haukur Jakobsson skrifar

Miklar endurbætur á lánum menntasjóðs námsmanna
Elín Íris Fanndal skrifar

Drögum úr fordómum í garð Breiðholts
Alex Vor Ólafs,Jörundur Þór Hákonarson,Theodóra Líf Reykdal skrifar

Er almenningur rusl?
Sigurður Ingi Friðleifsson skrifar

Líffræðilega ómögulegt
Björn Ólafsson skrifar

Veiðigjaldið stendur undir kostnaði
Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar

Minn gamli góði flokkur
Hólmgeir Baldursson skrifar

Hve lengi tekur sjórinn við?
Björn Brynjúlfur Björnsson skrifar

Orkan okkar, börnin og barnabörnin
Jóna Bjarnadóttir skrifar

Að fjárfesta í sjálfbærri verðmætasköpun
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir skrifar

Að bregðast ungu fólki í viðkvæmri stöðu
Ingibjörg Isaksen skrifar

Þekkir þú áhrifavaldana í lífi barnsins þíns?
Daðey Albertsdóttir,Silja Björk Egilsdóttir,Skúli Bragi Geirdal skrifar

Hliðarveruleiki hræðsluáróðurs og „pólitískur forarpyttur“
Þórður Snær Júlíusson skrifar

Fyrir hverja er Sjúkratryggingar Íslands?
Hrefna Sif Jónsdóttir skrifar