Skoðun

Í frjálsu falli?

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Ein algengustu mistök fjárfesta eru að elta ávöxtunartölur. Benjamin Graham, lærifaðir Warrens Buffett, ræðir um þetta í bókinni The Intelligent Investor og kallar þann sem hagar sér með þessum hætti Hr. Markað.

Sagan segir ekki endilega til um framhaldið

Hr. Markaður er hrifinn af því sem hefur hækkað í verði en vill losa sig við eignir sem hafa lækkað. Fyrir þessum verðbreytingum geta verið góðar ástæður og sennilega hafa þær ekkert um framtíðina að segja en samt virðist honum líða betur þegar hann hegðar sér með þessum hætti. Þar sem hlutabréf sveiflast reglulega talsvert í verði er ekki óalgengt að Hr. Markaður kaupi eða selji nálægt þeim tímapunkti sem verðið breytir um stefnu. Raunar segist Buffett leitast eftir því að eiga viðskipti við Hr. Markað, sem vill alltaf kaupa bréfin af honum dýrt og selja ódýrt.

Því miður ræðst hegðun fjárfesta oft af sögulegum gögnum fremur en væntingum um framtíðina. Í daglegu tali er jafnvel talað um að verðbólgan „sé 1,9%“, krónan „sé að styrkjast“ og hlutabréf jafnvel „í frjálsu falli“. Réttara væri að segja að verðbólgan hafi verið 1,9% síðustu 12 mánuði, krónan hafi styrkst og hlutabréf hafi lækkað í verði.

Þetta villandi orðalag getur valdið því að fjárfestar gefa sér að hreyfingar síðustu daga eða vikna séu varanleg stefna og taki ákvarðanir út frá því.

Frjálsa fallið búið þegar fréttin berst?

Til gamans tók ég saman sjö síðustu fréttir íslenskra fjölmiðla um að hlutabréf fyrirtækja væru „í frjálsu falli“. Að meðaltali var mesta lækkun dagsins, frá lokagengi síðasta viðskiptadags, 19,3%, sem vissulega er umtalsverð lækkun. En var fallið frjálst?

Þegar litið er á gengið viku eftir að fréttin var skrifuð höfðu hlutabréfin að meðaltali hækkað um 1,6% og um 5,5% sé miðað við 30 daga.

Úrtakið er kannski full lítið til að kalla mætti fréttir sem þessar kauptækifæri en þar sem Hr. Markaður leynist víða væri ekki úr vegi að endurskoða orðalagið.






Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×