Viðskipti innlent

Telja fasteignafélögin undirverðlögð

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Greiningardeildin segir að dagleg velta H&M fyrstu dagana í Smáralind hafi verið um 28 milljónir króna.
Greiningardeildin segir að dagleg velta H&M fyrstu dagana í Smáralind hafi verið um 28 milljónir króna. vísir/andri
Greiningardeild Arion banka mælir með því að fjárfestar kaupi hlutabréf í skráðu fasteignafélögunum þremur, Eik, Regin og Reitum. Greiningardeildin birti ný virðismöt fyrir fasteignafélögin í síðustu viku, en þau eru á bilinu 9 til 14 prósentum yfir dagslokagengi hlutabréfa félaganna í gær.

Greiningardeildin metur virði hvers hlutar í Eik á 11,7 krónur á hlut. Lækkaði virðismatsgengið um 1,6 krónur á hlut frá síðasta mati, en það má að mestu rekja til breytinga í ytra umhverfi. Þannig hafi fasteignamat hækkað umfram væntingar og ávöxtunarkrafa auk þess rokið upp.

Bent er á að leigustarfsemi félagsins hafi verið stöðug og útleiguhlutfallið sterkt. Hins vegar hafi tekið að halla undan fæti í hótelrekstri félagsins, en Eik á og rekur Hótel 1919. Greiningardeildin tekur fram að stjórnendur fasteignafélagsins hafi lækkað afkomuspá sína fyrir hótelreksturinn á yfirstandandi rekstrarári.

Sérfræðingar Arion banka meta virði hvers hlutar í Regin á 28,7 krónur á hlut. Til samanburðar var virðismatsgengið 27,4 krónur á hlut í síðasta virðismati í mars . Segjast sérfræðingar bankans sjá fram á mikil tækifæri á næstu árum vegna fyrirhugaðra fjárfestinga, meðal annars á Hafnartorgi. Auk þess er bent á að mikil velta í nýrri verslun fatakeðjunnar H&M í Smáralind, sem og aukin aðsókn í verslunarmiðstöðina, hljóti að teljast góð tíðindi. Er til dæmis tekið fram að dagleg velta fyrstu sex daga H&M í Smáralind hafi numið um 28 milljónum króna.

Þá metur greiningardeildin virði hvers hlutar í Reitum 100,8 krónur. Lækkar verðmatið um 3,9 krónur á hlut frá síðasta mati í lok júlí. Uppgjör félagsins á öðrum fjórðungi var í takt við væntingar greiningardeildarinnar og kallaði ekki á breytingar á rekstrarspá. Má rekja lækkun á virðismatinu einkum til breytinga í ytra umhverfi félagsins, svo sem hærri ávöxtunarkröfu, verðbólguálags og lægri verðbólgu en áður var gert ráð fyrir.

Greiningardeildin bendir á að rekstrarspá stjórnenda taki mið af óbreyttu eignasafni, en hins vegar standi til að stækka safnið um átta til tíu milljarða króna á seinni helmingi ársins. Telur hún félagið vel í stakk búið til að ráða við slíka fjárfestingu. Til að mynda hafi handbært fé safnast upp á undanförnum mánuðum og verið um 5.387 milljónir króna í lok annars ársfjórðungs.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×