Engin heildstæð stefna liggur fyrir hvað varðar birtingu íslenskra laga og reglugerða á öðrum tungumálum en íslensku. Að mati Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, gæti verið ástæða til slíks í ljósi þess hve samfélagið hefur breyst á undanförnum árum.
Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Jóns um hvernig staðið er að birtingu þýddra útgáfna á íslenskum lögum kemur fram að tilteknir bálkar hafi verið þýddir yfir á ensku en ekki er um þýðingu á önnur tungumál að ræða. Þá var ekki unnt að veita svör við því hvenær þýðingarnar voru uppfærðar. Sambærilegum fyrirspurnum sem þingmaðurinn sendi til annarra ráðuneyta hefur ekki verið svarað.
Könnun Fréttablaðsins leiddi í ljós að á enskri útgáfu vefs Stjórnarráðsins eru 360 lög og reglugerðir birt á ensku. Um tveir þriðju hlutar þeirra koma frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Fréttablaðið fann ekki dæmi um þýðingar á önnur tungumál.

Erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi í fyrra voru rúmlega 30 þúsund og hefur fjöldi þeirra fjórfaldast frá aldamótum. Langflestir þeirra, ríflega 13 þúsund, eiga rætur að rekja til Póllands en að auki eru fjölmennir hópar frá Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, Filippseyjum og Taílandi.
„Í fyrsta lagi langar mig að vita hvort við séum að sinna fólkinu nægilega og gera réttindi og skyldur þessara hópa nægilega aðgengileg. Einnig þeim sem eru að aðstoða þau, til að mynda lögmenn og stéttarfélög. Í öðru lagi tel ég að það eigi að kanna hvort ástæða sé til þess að fjölga þeim tungumálum sem við þýðum lög og reglur á,“ segir hann.
Þá telur Jón Steindór að mögulega þurfi að breyta því hve oft þýddar útgáfur eru uppfærðar. Sé þýðingin á almennum hegningarlögum til að mynda skoðuð sést að sú útgáfa er frá september 2015. Síðan þá hefur lögunum verið breytt sex sinnum.
„Það er auðvitað bagalegt er langt líður á milli þess sem þýðingar eru uppfærðar. Best væri ef þetta væri uppfært jafnóðum,“ segir Jón Steindór.