Innlent

Þurfti að kalla Berg sérstaklega í réttarsalinn

Jakob Bjarnar skrifar
Jónas Garðarsson í Félagsdómi í gær. Hann sagði að Bergur hafi aldrei verið boðaður.
Jónas Garðarsson í Félagsdómi í gær. Hann sagði að Bergur hafi aldrei verið boðaður. visir/vilhelm
Kjörinn formaður Sjómannafélags Íslands, Bergur Þorkelsson, mætti til vitnaleiðslu í Félagsdómi gær eftir nokkra andstöðu lögmanns félagsins, en þar fór fram aðalmeðferð máli Heiðveigar Maríu Einarsdóttur á hendur félaginu. Áður hafði Félagsdómur fallist á þrjár af sex frávísunarkröfum Sjómannafélags Íslands í stefnu Heiðveigar Maríu Einarsdóttur gegn félaginu.

Miklar deilur hafa staðið innan Sjómannafélags Íslands undanfarnar vikur og mánuði. Þær náðu hámarki þegar stjórn félagsins ákvað að vísa Heiðveigu Maríu úr félaginu. Hún hugðist bjóða sig fram til formennsku en eftir að hún hafði gefið það út kom á daginn að hún hefði þurft að hafa greitt félagsgjöld í þrjú ár til að teljast kjörgeng.

Jónas segir Berg aldrei hafa verið boðaðan

Heiðveig María hefur gagnrýnt stjórn félagsins harðlega, þá í því sem lýtur að ýmsum atriðum en einkum þó það hversu treglega hefur gengið að fá upplýsingar á skrifstofu félagsins.

Heiðveig María og lögmaður hennar fara meðal annars fram á að brottvikning hennar úr Sjómannafélagi Íslands verði dregin til baka.visir/vilhelm
Sú gagnrýni beinist ekki síst að Bergi Þorkelssyni sem þá var gjaldkeri félagsins og starfaði þar á skrifstofunni. En var á síðasta aðalfundi kjörinn arftaki Jónasar Garðarssonar sem undanfarin árin hefur gegnt formennsku. Bergur var sjálfkjörinn en Bergur tekur ekki við fyrr en við næsta aðalfund, lok þessa árs.

Bergur var þannig aðalvitni Kolbrúnar Garðarsdóttur lögmanns Heiðveigar. Jónas Garðarsson, starfandi formaður, mætti hins vegar í upphafi réttarhaldanna og fullyrti við fréttamenn Vísis að Bergur hefði aldrei verið boðaður. Jónas ítrekaði í vitnastúku það sem hann hefur áður sagt að fullkomlega réttlætanlegt hafi verið að reka Heiðveigu úr félaginu.

Dómarar gera hlé meðan Bergur er kallaður til vitnis

Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður Heiðveigar Maríu Einarsdóttur, segir ekki sannleikanum samkvæmt. Bergur hafi verið margboðaður en stjórn Sjómannafélagsins hafi síður viljað að hann gæfi skýrslu.

Heiðveig og lögaður hennar, Kolbrún Garðarsdóttir sem segir það rangt hjá Jónasi, margoft hafi Bergur verið boðaður til að bera vitni.visir/vilhelm
Hún segist ekki vita hvers vegna en það vakti athygli fréttamanna að skömmu eftir að aðalmeðferðin hófst gerði fjölskipaður dómstóll hlé á henni og fór afsíðis um stund. Lögmaður SÍ, féllst að lokum á að kalla Berg til vitnis eftir að reynt hafði verið að finna út úr því hvort hann hefði stöðu vitnis eða aðila þar sem lögmaður SÍ vissi ekki hver var raunverulegur formaður félagsins. Dómurinn skrapp frá meðan lögmaður hringdi í Bergi og bauð honum að koma.

Niðurstöðu er að vænta innan tíðar en krafa Kolbrúnar er meðal annars sú að brottrekstur Heiðveigar Maríu verði dreginn til baka og að þriggja ára reglan svokölluð standist ekki. Það þýðir þá að stjórn gangist við því að ólöglega hafi verið staðið að síðasta stjórnarkjöri.

Uppfært 13:50

Fréttin var lagfærð vegna ónákvæmni, í fyrri útgáfu var sagt að gert hafi verið hlé á störfum réttarins til að taka afstöðu til kröfu Kolbrúnar um að Bergur mætti. Dómurinn skrapp frá meðan lögmaður SÍ hringdi í Berg.

Fjölskipaður dómurinn gerði hlé á störfum sínum til að fara sérstaklega yfir kröfu Kolbrúnar þess efnis að Bergur mætti við réttarhöldin. Það varð úr, sérstaklega var haft samband við Berg sem svo mætti með seinni skipunum.visir/Vilhelm

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×