Innlent

Gekk berserksgang og braut innanstokksmuni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Annað málið kom upp í Hafnarfirði.
Annað málið kom upp í Hafnarfirði. Vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo vegna heimilisofbeldis í gærkvöldi. Um níuleytið var lögregla kölluð til að heimili í Vesturbænum en þar hafði „komið til handalögmála“ milli sambýlisfólks, líkt og segir í dagbók lögreglu. Lögregla handtók ætlaðan geranda og kallaði eftir aðstoð fulltrúa barnaverndarnefndar og félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, ætluðum þolanda og börnum þeirra til aðstoðar.

Laust fyrir miðnætti var svo óskað eftir aðstoð lögreglu að heimili í Hafnarfirði vegna manns sem gekk þar berserksgang. Maðurinn er grunaður um að hafa meðal annars lagt hendur á maka sinn og brotið húsmuni í æðiskastinu.

Hann var handtekinn og rannsóknarlögreglumaður tók við rannsókn málsins á vettvangi. Einnig kom fulltrúa barnaverndarnefndar að vettvangi til aðstoðar börnum og þolanda. Maðurinn var vistaður í fangageymslum lögreglu og verður hann yfirheyrður með morgninum.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu að heimili í austurborginni um áttaleytið í gærkvöldi. Þangað var kominn fyrrverandi maki húsráðanda og neitaði að yfirgefa staðinn að beiðni þess síðarnefnda. Sá fyrrnefndi var þó farinn á brott þegar lögreglu barð að garði, að því er segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×