Viðskipti innlent

Næsta rimma ALC og Isavia í dómsal á fimmtudaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia. Vísir
Boðað hefur verið til fyrirtöku í máli bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC gegn Isavia á fimmtudaginn í Héraðsdómi Reykjaness. ALC krefst þess að kyrrsetningu Isavia á Airbus-þotunni TF-GPA, sem WOW air hafði á leigu hjá ALC, verði aflétt.

Þetta er í annað skipti sem ALC fer með málið fyrir héraðsdóm. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Isavia hefði verið heimilt að kyrrsetja vélina vegna 87 milljóna króna skuld WOW air við Isavia vegna vélarinnar. WOW air varð gjaldþrota þann 28. mars en flugfélagið skuldaði Isavia um 2,5 milljarða króna.

Isavia hefur neitað að afhenda ALC vélina vegna milljarðanna tveggja og kærði úrskurð héraðsdóms í síðustu viku til Landsréttar. Telur Isavia að dómafordæmi hafi ekki verið virt í úrskurðinum. Í úrskurðinum sagði að Isavia mætti ekki kyrrsetja þotuna vegna allra skulda WOW air heldur aðeins vegna þessarar tilteknu vélar.

Nýja málið verður tekið fyrir klukkan 15:30 á fimmtudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×