Skoðun

Hugmynd fyrir þingið

Guðmundur Steingrímsson skrifar
Það er fastur liður á vorin, álíka fyrirsjáanlegt og að Ísland vinni ekki Eurovision, að einhverjir fulltrúar á Alþingi Íslendinga finni til málæðis. Það er svolítið eins og þeim sé sleppt út líkt og kúm og þeir hlaupi í æðibunu um lendur stjórnmálanna. Sól hækkar. Hiti vex. Gras grænkar. Fólk almennt brosir. Inni á þingi skilar þessi vorkoma og aukna bjartsýni sér hins vegar iðulega í því, á einhvern lífeðlisfræðilegan máta, að í brjóstum sumra þingmanna brýst fram þörf til að tala. Menn vilja eiga ræðustólinn. Þeir vilja stoppa mál. Þeir gera sig þvera. Þeir tala á næturnar.

David Attenborough gæti vafalítið gert um þetta góðan þátt. Koma mætti fyrir alls konar myndavélum í þingsal, örmyndavélum og infra-rauðum til næturtöku, og safna efni í mörg ár. Niðurstaðan yrði mögnuð dýralífsmynd um hegðun miðaldra karldýra í lokuðum rýmum á norðurslóðum að vorlagi.

Hvað á að gera í þessu? Þetta er alltaf jafn ömurlegt. Málþóf á þingi er illskiljanlegt öllu venjulegu fólki, lítur út eins og fáránleg vitleysa og er skammarblettur á þingstörfum. Meira óskiljanlegt er þó hitt, að í mörg ár hefur legið fyrir að reglur um þingfundi, svokölluð þingsköp, eru í meira lagi gölluð. Þau bjóða upp á þessa vitleysu.

Minnihlutinn ræður

Í liðinni viku hertóku Miðflokksmenn ræðustól Alþingis og hófu þar tal sitt. Edrú, held ég. Þeim hugnast ekki þingsályktunartillaga um þriðja orkupakkann, svokallaða, sem hefur samt verið í umræðu og skoðun hér á landi í hátt í áratug, og var upphaflega samþykktur í öllum megindráttum af þeim sjálfum. Gott og vel. Þingmenn mega auðvitað vera á móti. Allir hafa rétt á sinni skoðun og sannfæringu. Fólk má líka skipta um skoðun. Allt er þetta leyfilegt og eðlilegt. Í þingstörfum hins vegar verður að ríkja einhvers konar skilningur á tvennu, og jafnvægi milli þeirra sjónarmiða: 1) Meirihlutinn verður að ráða á einhverjum tímapunkti. Það er í anda lýðræðisins. 2) Minnihlutinn verður að hafa einhver áhrif. Það er líka lýðræðislegt og ákaflega oft til bóta.

Það verður að segjast eins og er, að þingsköpum hefur því miður verið þannig háttað um nokkurra ára skeið, að jafnvægi milli þessara sjónarmiða ríkir engan veginn. Minnihlutinn hefur samkvæmt þingsköpum aðeins eitt vopn: Að tala. Í krafti þess hefur raunin því miður orðið sú að minnihlutinn ræður. Hann hefur töglin og hagldirnar. Það gengur auðvitað ekki.

Gallinn er þessi

Reglum um ræðutíma var breytt fyrir nokkrum árum. Áður fyrr máttu þingmenn ekki fara oft í pontu, en þeir máttu hins vegar tala eins lengi og þeir vildu. Málþóf voru því með þeim hætti, að þingmenn töluðu í fimm, sex, sjö tíma, jafnvel, og lásu upphátt heilu bækurnar. Allt þangað til þeir þurftu að fara á klósettið, sem var auðvitað alltaf vonbrigði fyrir hlutaðeigandi þingmann, en brýnt. Þetta þótti bagalegt fyrir ásýnd þingsins. Þessu var breytt. Ákveðið var að takmarka ræðutíma.

Eitt sáu menn ekki fyrir: Nú geta þingmenn farið upp í pontu aftur og aftur. Þeir geta farið endalaust upp í pontu og haldið stuttar ræður. Fyrir málþófspésa er þetta í raun miklu hentugra fyrirkomulag. Haldin er stutt ræða um alls kyns þrúgandi álitaefni með tilheyrandi handahreyfingum. Samflokksmenn fara í andsvör. Mínúturnar safnast upp. Svo endurtekur samherji þetta ferli, á meðan hinn fer að pissa, tékkar á netinu eða horfir á Netflix. Svo er þetta endurtekið. Aftur og aftur. Í raun geta tveir þingmenn, með því að skiptast á (og þess eru dæmi), haldið þinginu í gíslingu eins lengi og þeim sýnist.

Til eru ákvæði í þingsköpum sem segja að viss fjöldi þingmanna geti stöðvað umræðu og farið fram á atkvæðagreiðslu. Af hverju er þessu ákvæði ekki beitt, er stundum spurt. Ástæðan er einföld: Ef þessu ákvæði yrði beitt til að stöðva umræðu um eitt tiltekið ágreiningsmál, þá yrði niðurstaðan einfaldlega sú að málþófsmenn myndu stöðva öll önnur mál. Ákvæðinu þyrfti því að beita um öll mál. Og jafnvel þótt það yrði gert, gætu málþófsmenn samt farið í pontu út af alls konar öðrum ástæðum.

Undarleg tregða

Þannig að: Málþóf er plága. Margir hafa í gegnum tíðina ljáð máls á því að breyta þessu. Besta leiðin væri sú, að vopn minnihlutans til að hafa áhrif fælist frekar í því að geta skotið ágreiningi til þjóðarinnar. Það væri á allan hátt heilbrigðara og lýðræðislegra.

Einhverra hluta vegna stendur ekki vilji til þess. Menn vilja frekar málæðið. Það er rannsóknarefni í sjálfu sér. En jæja. Kannski þarf bara að hugsa aðeins út fyrir boxið. Hér er þá önnur tillaga að lausn: Skiptum salnum upp í 63 lítil rými og höfum púlt inni í hverju þeirra. Hver þingmaður getur talað í sínu púlti að vild og má taka púltið með heim til sín. Ok?




Skoðun

Sjá meira


×