Stýrihópur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fundaði í morgun um samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Drög að breyttu samkomulagi var sent á bæjarstjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi, að því er fram kom í frétt RÚV í morgun.
Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segist í samtali við Vísi lítið geta tjáð sig um efni fundarins. Honum var nýlokið þegar fréttastofa náði af honum tali.
„Þessar viðræður eru bara í góðu ferli,“ segir Páll. Það sé verið að vinna í málunum en að öðru leyti geti hann lítið sagt.
Fréttastofa hefur ekki tekist að ná tali af neinum bæjarstjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í morgun.
Nýverið var greint frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefði kynnt hugmyndir um að veggjöld á helstu stofnæðum höfuðborgarsvæðisins yrðu tekin upp til að fjármagna samgönguframkvæmdir á svæðinu. Var greint frá því að hugmyndir væru uppi um að gjöldin yrðu á bilinu tvö til sex hundruð krónur fyrir hverja ferð, hæst á háannatíma en lægri á öðrum tímum sólarhrings.

