Innlent

Ný kynslóð orrustuvéla sinna loftrýmisgæslu við Ísland

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Sex F-35 orrustuþotur, frá ítalska flughernum, eru þessar vikurnar gerðar út frá Keflavíkurflugvelli í loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins. Þoturnar eru af nýrri kynslóð orrustuþotna og eru einungis notaðar til gæsluverkefna utan átakasvæða.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hófst að nýju í lok september þegar sex F-35 orrustuvélar komu hingað til lands. Hundrað og fjörutíu liðsmenn ítalska flughersins taka þátt í verkefninu auk starfsmanna frá stjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi.

Þetta er í fimmta skipti sem ítalski flughersinn tekur að sér lofrýmisgæslu fyrir NATO við Ísland og í annað skipti á þessu ári. Verkefnið er skipulagt af Landhelgisgæslu Íslands og Isavia og er fyrirkomulagið með sama hætti og verið hefur.

Fyrr í sumar sinnti bandaríski flugherinn verkefninu en þá tóku hundrað og tíu liðsmenn flughersins þátt og voru hér á landi fimm F-16 orrustuþotur.

Fjölmiðlar fengu í dag að skoða ítölsku orrustuvélarnar sem eru af nýrri kynslóð slíkra véla, svokallaðri fimmtu kynslóð. Þær eru notaðar til gæsluverkefna utan átakasvæða. Landsmenn geta átt von á því að sjá vélarnar víða um landið en gert er ráð fyrir aðflugsæfingum á Akureyri og Egilsstöðum til fjórða októer. Loftrýmisverkefnið nú stendur til loka næsta mánaðar.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×