Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst á níunda tímanum í gærkvöldi tilkynning um frelsissviptingu í Fossvogi. Þar sagðist kona vera í bifreið gegn vilja sínum, þar sem par væri að krefja hana um peninga.
Þegar lögregla fann konuna var parið farið á bifreiðinni. Konan sagði parið hafa náð að gera tvær úttektir af greiðslukorti sínu. Málið er í rannsókn, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá handtók lögregla konu í annarlegu ástandi í Skeifunni. Konan er grunuð um líkamsárás og þjófnað og var vistuð í fangageymslu fyrir rannsókn máls.
Lögregla sinnti einnig útkalli á bar í miðbænum á öðrum tímanum í nótt. Þar hafði dyravörður ýtt við manni sem féll aftur fyrir sig á gangstétt. Í dagbók lögreglu er atvikinu lýst sem slysi en maðurinn hlaut blæðingu á höfði við fallið. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en ekki er vitað frekar um áverka.
Þá voru tveir menn handteknir grunaðir um eignaspjöll á íbúðarhúsi í miðbænum í nótt. Mennirnir voru færðir á lögreglustöð og lausir að lokinni skýrslutöku.
Lögreglu í Hafnarfirði var í gær tilkynnt um innbrot í geymslu í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði. Búið var að spenna upp glugga og hurð og valda skemmdum en ekkert virðist hafa verið tekið.
Þá var tilkynnt um innbrot og þjófnað á Grundartanga í gærkvöldi. Viðkomandi hafði á brott með sér sjónvarp og fleiri muni.
Karlmaður var handtekinn í Árbæ grunaður um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu.
