Ökumaður og farþegi bifreiðar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi í Kópavogi reyndust vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá fundust fíkniefni og ólögleg lyf í fórum þeirra, auk þess sem þeir reyndust hafa á sér vopn, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Ekki eru veittar frekari upplýsingar um málið. Alls gistu sex fangaklefa í nótt fyrir hin ýmsu brot.
Þá voru afskipti höfð af manni í Fossvogi vegna þjófnaðar úr verslun í hverfinu. Þá fundust einnig fíkniefni á manninum. Málið var afgreitt á vettvangi.
Lögregla handtók einnig mann í miðbænum sem gat ekki gert grein fyrir dvöl sinni hér á landi, að því er segir í dagbók lögreglu. Maðurinn var einnig með fíkniefni meðferðis og var vistaður í fangaklefa.
Þá barst lögreglu í tvígang tilkynning um einstaklinga sem voru að reyna að spenna upp glugga á húsum, í Hafnarfirði annars vegar og í miðbæ Reykjavíkur Hins vegar. Ekki tókst að hafa hendur í hári þeirra sem þar áttu í hlut.
Innlent