Erlent

Litlar gáma­verslanir sagðar hafa um­breytt lands­byggðar­lífinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ein af verslununum sem umræðir.
Ein af verslununum sem umræðir. Mynd/LIFVS

Ómannaðar sjálfvirkar verslanir hafa umbreytt lífinu á landsbygðinni í Svíþjóð ef marka má frétt í Guardian um nýsköpunarfyrirtæki sem opnað hefur nítján slíkar verslanir í fámennum byggðum Svíþjóðar.

Í frétt Guardian segir að umræddar verslanir séu ekki flóknar, álíka stórar og einn gámur og þar sem viðskiptavinir sjá sjálfir um ferlið frá a-ö, líkt og tíðkast í verslunum hér á landi þar sem sjálfvirkir afgreiðslukassar hafa verið settir upp.

Munurinn er hins vegar sá að verslanirnar eru ómannaðar og aðeins myndavél í horni verslunarinnar fylgist með að viðskiptavinir freistist ekki til þess að hnupla einhverju úr versluninni.

Fyrirtæki sem sett hefur upp þessar nítján verslanir víðs vegar um Svíþjóð heitir Lifvs. Það einbeitir sér að svæðum þar sem verslunarkeðjur hafa gefist upp á því að halda úti verslunum sökum fámennis.

Til marks um þessa þróun í Svíþjóð er nefnt að árið 1984 voru 8.500 kjörbúðir í Svíþjóð, árið 2010 voru þær orðnar 3.500. Í frétt Guardian er fjallað um verslun Lifvs í bænum Eket. Bærinn hefir glímt við fólksfækkun og verslun bæjarins hvarf á braut fyrir skemmstu.

„Það er svolítið skrýtið að geta ekki sagt hæ við neinn í búðinni. En ef þetta er það sem þarf til þess að halda lífi í þessu litla þorpi, þá er þetta mjög gott,“ er haft eftir Emma Nilsson, íbúa í Eket.

Um 500 vörutegundir eru í boði og reynt er að tryggja að helstu nauðsynjavörur fáist hverju sinni.

Einn starfsmaður sér til þess að nægt framboð sé af vörum í versluninni, en hún sér einnig um tvær aðrar slíkar verslanir í nærliggjandi bæjarfélögum. Öll yfirbygging er því í lágmarki og þannig er hægt að halda kostnaði niðri, en verðlag í verslunum á fámennum svæðum er tíðrætt umkvörtunarefni, víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×