Skoðun

Með ást og kærleik

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Í þessu því ólíkindina ástandi sem nú ríkir hefur Þríeykið okkar sinnt sínu starfi af kærleik og trausti og hefur gert í marga mánuði. Hálft ár í hringiðju heimsfaraldurs er farið að taka á. Því skiptir traustið miklu máli, hvernig skilaboðunum er komið á framfæri og hvernig við tölum hvert við annað. Traust er byggt upp meðal annars á kærleik og umhyggju.

Ástarvika

Nú stendur yfir ástarvika í Bolungarvík, ein vika á ári sem áhersla er lögð á kærleik og ást. Þessi vika hefur átt sér stað og stund í Bolungarvík síðan árið 2004. Hún byggir á hugmynd sem kemur frá Soffíu Vagnsdóttur. Í gegnum árin hefur þessari viku fylgt menningardagskrá með tónleikum, ljóðalestri og góðum mat því það er svo auðveld leið að flytja kærleik áfram með þeim hætti. Markmiðið með því að leggja áherslu á kærleikann í eina viku er einfalt og því auðvelt að tileinka sér það.

Ástarvikan ætti að vera haldin á landsvísu á þessum skrýtnu tímum. Það er nefnilega hægt að sýna fólki kærleika þrátt fyrir að það standi að lágmarki í tveggja metra fjarlægð því hann á sér ekki landamæri.

Hamingjunefnd

Í Skútustaðahreppi við Mývatn starfar hamingjunefnd á vegum sveitarfélagsins, nefnd sem sveitastjórnin ákvað að setja á fót með það að markmiði að auka vellíðan og hamingju íbúa með stefnumiðuðum hætti. Það eitt að setja af stað nefnd gerir okkur ekki hamingjusöm en hún beinir athygli okkar að því að það er skylda samfélagsins að sinna lýðheilsu og geðheilbrigði íbúanna.

Í Reykjavík var tendrað ljós á friðarsúlunni í sl. viku, ljós friðar og líka tákn vonar eins og borgarstjóri kom inn á þegar hann kveikti og því mjög viðeigandi á þessum tímum. Það eru því tákn um allt land sem minnir okkur á að sýna hvert öðru kærleika og friðarsúlan og ástarvikan er tákn sem telur. Kærleikurinn birtist með ýmsum hætti en talar alltaf sama tungumáli.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×