Innlent

Starfsmenn og sjúklingur á Landakoti greindust með veiruna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Landakot stendur við Túngötu í Reykjavík.
Landakot stendur við Túngötu í Reykjavík. Vísir/vilhelm

Nokkrir starfsmenn og einn sjúklingur á Landakoti, öldunarlækningadeild Landspítala, greindust með kórónuveiruna síðdegis í gær. Allir sjúklingar á tveimur deildum eru komnir í sóttkví og Landakoti hefur verið lokað fyrir heimsóknum.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu í dag en Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður forstjóra Landspítala staðfestir smitin í samtali við Vísi. Hún segir að smitrakning hafi þegar farið í gang í gær. Þá sé einnig hafin skimun á þeim sem útsettir eru fyrir smiti.

„Við sjáum eftir því sem líður á daginn hvernig framhaldið verður, hvort það greinist fleiri,“ segir Anna Sigrún.

Sjúklingurinn sem er smitaður hefur verið fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala. Um hundrað starfsmenn spítalans verða skimaðir út frá starfsmönnunum Landakots sem greindust. Á milli 50 og 60 sjúklingar eru á Landakoti og um helmingur þeirra er í sóttkví á tveimur deildum.

„Við getum áfram sinnt fólkinu, það er starfsfólk til þess. Vonandi náum við svo að aflétta sóttkví hratt en það kemur í ljós,“ segir Anna Sigrún.

Kórónuveiran komst einnig inn á Landakot í fyrstu bylgju faraldursins í vor. Þá greindust nokkrir starfsmenn og sjúklingar með veiruna og á tímabili var lokað fyrir innlagnir á Landakot vegna smitanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×