Innlent

Ræktar ellefu þúsund jólastjörnur í Hveragerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Birgir Steinn Birgisson hjá garðyrkjustöðinni Ficus í Hveragerði er einn af þremur garðyrkjubændum í landinu, sem ræktar jólastjörnur.
Birgir Steinn Birgisson hjá garðyrkjustöðinni Ficus í Hveragerði er einn af þremur garðyrkjubændum í landinu, sem ræktar jólastjörnur. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Garðyrkjubóndi í Hveragerði segist vera komin í jólaskap fyrir löngu enda búin að vera að rækta jólastjörnur frá því í sumar, sem fara nú að fara í verslanir. Garðyrkjubóndinn ræktar um ellefu þúsund jólastjörnur með fimm mismunandi litum.

Birgir Steinn Birgisson hjá garðyrkjustöðinni Ficus í Hveragerði er einn af þremur garðyrkjubændum í landinu, sem ræktar jólastjörnur. Gróðurhúsið hans er þakið fallegum rauðum jólastjörnum og svo er hann með nokkur önnur litarafbrigði, sem hann hefur verið að prófa sig áfram með.

„Það tekur fjóra til fimm mánuði að rækta eina jólastjörnu,“ segir Birgir.

Rauðu jólastjörnurnar eru alltaf vinsælastar og seljast best í verslunum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvernig er besta að hugsa um jólastjörnur?

„Ég myndi láta hana á stofuborðið eins og fólk gerir venjulega og ekki að vökva hana of mikið. Það er gott að vökva hana með undirvökvun þannig að hún drekkur upp vatnið eins og hún vill gera og sturta svo úr og leyfa henni að ráða ferðinni. Þannig að ég myndi segja að það yrði vökvun svona fimmta hvern dag.“

Birgir Steinn ræktar fimm mismunandi litarafbrigði af jólastjörnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Birgir segist löngu vera komin í jólaskap.

„Já, já, við fórum í jólaskap í júlí, þá byrja jólin hérna í Bröttuhlíðinni í Hveragerði. Ég vil bara fá að segja gleðileg jól við alla landsmenn,“ segir Birgir garðyrkjubóndi léttur í bragði.

Gróðurhúsið hjá Birgi, sem er fullt af fallegum jólastjörnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×